Sami tími að 35 árum liðnum

Sami tími að 35 árum liðnum.

Gosið var stórfengleg og ægifögur sjón, því verður seint neitað.

Nú var aftur kominn þriðjudagur og jörð tók að skjálfa um svipað leyti að nóttu en á aðeins öðrum stað, sem sé Grindavík. Hringur að lokast og annar að opnast?

 Gott framtak Eyjamanna að færa þakkargjörð í gær, 23. janúar, 2008, í tilefni af upphafi goss í Heimaey 35 árum fyrr. Því magnaða sjónarspili þegar við mannfólkið fundum hvað best til smæðar okkar gagnvart ægivaldi Náttúrunnar. En hún reyndist okkur líka mild; mannbjörgin gosnóttina úr Eyjum alveg einstök, allur flotinn í höfn vegna óveðurs daginn áður og vindáttir hagstæðar. Líf tók að dafna á ný strax um sumarið og eyðileggingin að hopa.

 Það er þó ekki ofsögum sagt að Gosið hafði afgerandi áhrif á líf margra - og á þjóðarbúskapinn.

Forsjónin hagaði því þannig til í gær, að alls óvænt og óundirbúið, þá vorum við samankomin flest sem hittumst í Safamýrinni þennan örlagadag fyrir 35 árum. Ég þá nýstigin á land eftir nætursiglinguna úr Eyjum með eldinn í bakið.

 Margslunginn er hann þessi Tími. Hve táknrænt að þau færðu mér forláta úr...

Vonum það besta. 


Mangahelgi

Þetta er svona mangahelgi hér á Fróni; japönsk áhrif teiknimyndasögunnar síast vel inn í íslenskt geð. Og hvítgrár himinn gjóir til manns stórum, tárvotum augum.

Náði að sjá Tokyo godfathers sem ég fékk sem eina gamla með nýju 1408 myndinni eftir sögu Stephen Kings. Lærði ekki orð í japönsku en held ég hafi skilið söguþráðinn þrátt fyrir það. Ljóslifandi myndmálið leiðir mann áfram.

Já; ekki bregst Japönum bogalistin þegar kemur að anime. Oldboy lílkega ein sú besta kvikmynd sem gerð hefur verið eftir mangasögu. Verður gaman að sjá sýningu Borgarbókasafnsins í vikunni á mangateikningum eftir íslensk börn og ungmenni. Fara síðan í nördabúð dauðans - Nexus á Hverfisgötunni - og leita uppi alla Vengeance trílógíuna - Sympathy for Mr. Vengenance, Oldboy og Sympathy for Lady Vengeance.

Teikningar 9 ára drengs úr Breiðholtinu, Ágústs Hrafns, sem birtust í  fylgiblaði Moggans, Börn, í gær, eru hreint afbragð. Sé ekki betur en hér sé mikill mangasnillingur á ferð og sjálflærður. Ótrúlegar teikningar - og ekki vantar stóru augun...


Switched on Country

Eitt það besta við eftirjólatiltektina var að ég fann loksins geisladisk - Switched on country - sem lengi hefur verið týndur. Diskurinn inniheldur mörg frábær lög og ballöður. Allt í einu dúkkar hann upp eftir 2 ár og finnst í borðstofuskápnum! Fáir skápar þó jafn mikið notaðir á heimilinu þannig að ég skil þetta nú ekki.

Álfa - og huldufólkstrú enn sterk hér á Fróni eins og nýleg rannsókn þjóðfræðinga sýnir. Switched on country tekinn til spilunar í öðrum heimi og afritunargræjur nú komnar í hulduheima og loks hægt að skila?

Jæja, hvað veit maður svo sem.

 

It´s a long long way down the Mississippi... 


Orðhákar eru og verða orðhákar

Orðhákar eru og verða orðhákar. Þessi sterki strengur í brjóstinu og tóninn hreini dofnar seint þrátt fyrir aldur og fyrri störf. Það hrutu nefnilega ýmis ágæt orð og setningar af vörum einnar nákominnar sem fannst ég hafa minni tíma en venjulega. En hvað fá aldraðir og aðstandendur þeirra svo sem hér á Fróni? Nema skít og skömm í hattinn. Og ekki sýnist mér nýtt ár fela í sér fyrirheit sem staðið verður við í þágu aldraðra nema einhvern snýting úr nös.

 Aðspurð hvort ég hefði eitthvað verið að koma - sem ég geri raunar daglega - þá svaraði sú gamla: Ha? Felumyndin? Nei, ekki sést hér nema þá sem felumynd.

 Þegar hún var spurð um aðstoðina sem hún fékk við að skreyta jólatréið, þá svaraði hún að bragði: Ef þú mætir einhverjum í stiganum á hlaupum út sem hefur skreytt með ósýnilegum jólakúlum, þá er það hún. 

 Blessunin, nú skoðar hún bara krossgáturnar, hætt að kroppa í þær hvað þá ráða á mettíma eins og hér áður fyrr. Þessi mikla íslenskumanneskja. En orðhákshátturinn fer seint af. Greinilega - og til allrar lukku. Því hvað væri þetta líf ef ekki væri fyrir Orðið?


Nýr tími og nýr heimur í Íslandskortunum

Þá er það upprunnið, árið nýja 2008! Með stæl að vanda hér á Fróni og sjaldan fegurra að sjá allar millurnar springa yfir höfðum vorum - uss, uss, höfði voru, minn gamli íslenskukennari úr Reykholti myndi nú leiðrétta þetta, Jónas Árnason, alþingismaður, orðhákur og skáld með meiru - í skíru skyggni þessa áramótahimins.

Jæja, flott skal það vera. Eða fuss og svei og svartsýni? Í það minnsta framfarir í sprengjunum; nú sáust t.a.m. gylltir bombudraumar á lofti og mikið af þeim. Nýjasta nýtt frá Sjanghæ. 

Þetta er bara svona sakleysislegur dagur fullur af regni og að jafna sig eftir hviður næturinnar. Nýársdagur 2008. Biðjandi um frið og réttlæti í mannheimi. Yfir matartilbúningi með vínartónleika hljómandi frá skjánum. Nóg gyllt þar og dátt í höllinni.

Nýtt ár lofar góðu; það er bara þetta með okkur, Frónbúana, í þessu upplýsinga og harðsoðna/hraðsoðna póstmóderníska samfélagi, eigum við enn talsvert í land með að skilja verðmæti. Að sjá hve hallærislegt, beinlínis rangt, það er að traðka endalaust á þeim sem ekki hafa innherjaupplýsingarnar á reiðu og vita ekki að þeir eru staddir í miðju leikriti; peð í peningaskák. Meðferð persónuupplýsinga jaðrar við mannréttindabrot. Annars frábært land með frábærri þjóð. 

 Við eigum víst 40 ára afmæli í ár, Reykhyltingarnir hans Jónasar. Það vantar svona Jónasa. En trúlega er þróunin sparsöm á þá. Þetta eru ekki auðveld eintök í framleiðslu.

 


Er bjart framundan?

Það hefur verið dimmt þessi dægrin þrátt fyrir alhvíta jörð. Sandman - það var sem sagt einn harður pakki undir trénu - stendur undir væntingum og miðar vel áfram lesturinn.

Síðan er það Ljóðasaga Lorca á Íslandi; mjög svo tímabær undir heitinu Gustur úr djúpi nætur. Vögguþula:

Hér skal hjartaljúfur

heyra um Stóra-Faxa,

hestinn úti í ánni.

 Eins og ég hafi þuluna aldrei fyrri heyrt, en þó ávallt heyrt. Það er einhvern veginn þannig með þessi ljóð Lorca, yfir þeim svífur bæði tími og tímaleysi, forgengileiki og eilífleiki. Líkt og þessi ljóð hafi skrifað sig sjálf.

Það dimmir í mannheimi; Benazir Bhutto öll. 

Valdataka kornaxins og söngur Jarðar, kveður Lorca.

Er bjart framundan enda þótt það sé dimmt? 


Endurfæðing sólar og skuggsjá tímans

Sólin gengin í endurnýjun lífdaga við Vetrarsólstöður sem að þessu sinni bar upp á 22. desember. Fagur og mildur gærdagur við ysta haf og sömuleiðis dagurinn í dag, messa Þorláks biskups helga. 

 Skuggsjá tímans mis-skír; ástandið í mannheimi oft verið betra. En svona dagar fá mann vissulega til að líta upp, vegsama Sköpunina og skírleika himnaskuggsjárinnar.

Handan heima og í heimum, fer kærleikurinn líknandi og hljótt í húminu...

Aldrei að vita hvað dulúð Jóla færir heim og hvaða draumar ganga á þessum hringferli sólar og skugga.

Nú er Sandman teiknimyndasería Vertigo eftir Neil Gaiman komin í viðhafnarútgáfu og myndir endurlitaðar: Draumur hins Endalausa sem ríkir í draumheimum. Kannski einn harður pakki!

In dreams... 

 

  Litlir stúfar glaðir og góðir.

                                         

                                                              Gleðileg jól nær og fjær. 

 

 

 

  


Pisa, Umberto, draumar og englaspil

Samstarfið við Pisa háskóla og Umberto Barcaro um draumana gengur vel. Heilmikill handargangur fyrir helgi og okkur tókst að senda inn abstrakta á tilsettum tíma ásamt Olaf, Faribu, Gayle ofl. góðu draumfólki fyrir symposium í Montréal. Það er eðalpenninn Richard Russo, höfundur Empire Falls, sem verður í forsætinu.

Nýtt ár 2008 lofar því góðu í mörgu tilliti svona að slepptri allri sút. Margt er bæði mótsagnakennt og mótdrægt í þessum mannheimi á Fróni þar sem firring peninga - og okurhyggjunnar má sín mest nú um stundir. Og draumskrif lesast og skiljast svona fyrir ofan garðinn og neðan, a.m.k. hjá þeim sem síst skyldi. Eða þannig.

Vermandi tónlist - sannkallað englaspil - á landinu kalda: Mugiboogie tær snilld. Og englarödd Péturs Ben. nær að njóta sín í hæstu hæðum. Takk.

 


Montmartre og franskur leigubílstjóri í Vestmannaeyjagosi

Það var á fyrsta sunnudegi í Aðventu 2007 uppi á Montmartre - miðju hinnar frönsku heimsmyndar á Signuvöllum. (Svipar til heimsmyndar Íslendinga, Rangárvalla og Steinkrossins). Heilagur Denis gekk niður af Montmartre hæð með höfuð sitt eftir að vera hálshöggvinn. 

Allt getur gerst og ekkert er nýtt undir sólinni. Þessu til undirstrikunar gnæfir ægifögur Sacre - cæur Basilíkan þar yfir og allt um kring.

Úrhellisrigning á Place du tetre. Jú; málarar að selja sín verk uppvafin á torginu en engin að mála eins og við er að búast. Búnar að kaupa birgðir af Comtesse du Barry konfekti í einni af litlu vinalegu búðunum að gauka að vinum og vandmönnum. Og að spá í hvort við ættum að setjast inn á eitt kaffihúsanna eða reyna að fá bíl strax heim á hótel.

Héðan sér vel í klukkuna í turni Basilíku hins heilaga hjarta. Hún slær sex. Nú er eins og hellt sé úr fötu. Ha? Þarna er hann þá kominn - og óumbeðinn.

Upphitaður leigubíll og bílstjórinn; ja, hann kom okkur verulega á óvart. Fyrrum franskur sjómaður við Íslandsstrendur, en úr nútímanum þó. Hafði dvalið 4 ár við sjómennsku á Fróni og mest í Vestmannaeyjum. Lenti meira að segja í Gosinu! Vakinn upp aðfararnótt 23. janúar, 1973; eins og hann sagði: ég hélt að verið væri að ræsa okkur á sjóinn! 

Ég lenti nefnilega í Gosinu líka, var að kenna í Eyjum þennan vetur, sagði ég á innsoginu, (sterkt einkenni á franskættuðum Íslendingum). Vakin upp þessa frægu nótt - trúði ég eigin augum? - (þar sem ég bjó í Landlyst, elsta húsi bæjarins). 

Báðum fannst okkur upphaf gossins ótrúlega fögur sýn. Fann þarna andlegan skyldleika í lýsingunni. Horfði nú betur á sjómanninn/leigubílstjórann. Ekki laust við svip af langafa?

 Andartakið þegar tíminn brá á leik þarna á Montmartre, eða var þetta kannski e.k. leiðsögn frá forfeðrunum frönsku? Hef svo sem alltaf vitað að það væri húmör í ættinni þarna af Suðausturlandi...

Au revoir! 


Borg ljósanna og breiðgötur ó-brostinna drauma

Borg ljósanna ljúf heim að sækja í upphafi Aðventu og breiðgötur ó-brostinna drauma á hverju strái. Sterk og fögur heildarmynd og áfram rennur Signa tímalaus eins og ekkert hafi nokkru sinni ískorist þarna á bökkunum. Svona a.m.k. þegar maður þarf ekki að standa í einhverju veraldarvafstri og vandasömu skrifræði.

Ekki tiltökumál að ganga sig upp að hnjám í hverfunum tuttugu - við náðum cirka helmingnum - og hefja nýja göngu næsta dag með bros á vör. Veigar Guðanna á Monte Cristo á Ódáinsvöllum eða á Voru daglega Brauði gegnt dómkirkju Vorrar Frúar létti göngumóðum lund. Dulúðug brún jarðartenging á Buffon innan um öll dýrin stór og smá á Náttúrufræðasafninu færði heim sanninn um okkur og hin dýrin...

Draumurinn Parísarbúans reiðhjól eða vespa! Kannski rætist'ann í næstu heimsókn!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband