Formfagur Búlandstindur

Gærdagurinn var heilladrjúgur í suðrænni sólarsveiflu á Héraði. Juanita og Corcovado...

Gagnlegur vinnufundur á Þróunarstofu og þaðan á Djúpavog á fund í Löngubúð. Í þetta notalega gamla verslunar-og pakkhús sem nú er safn Ríkharðs Jónssonar og hýsir jafnframt ráðherrastofu Eysteins Jónssonar. Merkir synir Djúpavogs, báðir aldir upp við Voginn eða í næsta nágrenni hans. Langabúð er sannarlega góð heim að sækja ekki síður nú en á fyrri tíð. Kaffið og vöfflurnar standa alltaf fyrir sínu.

 Djúpivogur á suðaustur ströndinni og Eyrarbakki á suðvestur ströndinni, helstu verslunarstaðir landsins svo öldum skipti. Vegir þess tíma voru djúp og stríð vatnsföllin þarna á milli enda hættur margar og drukknanir tíðar. Og gengju mönnum ýmsir fyrirboðar bæði í draumi og vöku. Hreint ótrúlegt hvernig fólk fór að og virðist í raun hafa ferðast mun meira en nútímamaðurinn heldur.

Af allri fegurðinni við Voginn og sögunni, stendur Búlandstindurinn upp úr í orðsins fyllstu. Formfagur og sveipaður dulúð drauma og töfra. Lógó sveitarfélagsins Djúpavogs. Stærstur pýramída. Og hver veit hvað hann geymir.

Mér eru í minni sögurnar hennar ömmu Ingibjargar af þessum slóðum forfeðranna, sögurnar af íslenska Pýramídanum, Goðaborginni og Rakkaberginu. Sögur af margbreytilegum verum þessa heims og annars.

Já; hvað vitum við svo sem...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband