Snorri og Reykholt

Heimsókn í Snorrastofu í dag og nýja Reykholtskirkju. Já, hér er sannarlega allt með miklum myndarbrag. Bókasafnið umvafið mjúkri birtu sem fær mann til að gleyma stund og stað. Vel unnar sýningar um Snorra, goðorð hans, samtíma og ritverk. Margt merkra drauma í ritum hans s.s. í Heimskringlu sem draumahópurinn frá BNA hefur mikinn áhuga á að fræðast betur um.

Meira að segja kvenna og barna og lífs þeirra á Miðöldum er minnst á sérstakri sýningu. Loksins, konur og börn tekin með!

Kirkjan einstök og steindir gluggar Valgerðar Bergsdóttur fágætlega smekkvísir. Mildir brúnir tónarnir látlausir. Ekki krefjandi eins og svo oft er raunin með steinda kirkjuglugga. Orgelið hangandi uppi með geinarnar slútandi yfir kórbekkina - Lífsins tré - talandi.

 Sannarlega góð heimsókn. Allt á sínum stað en sumt lúið. Snorri sjálfur fyrir framan gamla skóla og prestsbústaðurinn hinum megin. Búið að mála gömlu timburkirkjuna - að innan í upprunalegum litum - og uppgröftur í gangi í Garðinum.

 Hér gekk ég um götur ´67-68 og naut lífsins í Reykholti. Átti þar góða daga. Yndislegt var að kynnast þeim sæmdarhjónum, ljúflingnum séra Einari og Önnu, þeirri einstöku lærdómskonu og enskumagister, og lesa hjá þeim í prestsbústaðnum undir landsprófið.

Í Reykholti urðu líka fyrstu kynni mín af hagnýtri sálfræði, af akademískum Parísar/Sorbonne straumum og af UNESCO. Þennan vetur var UNESCO starfsmaðurinn og prófessorinn, Andri Ísaksson, að vinna að nýjungum í kennslufræði og skólastarfi. Vorum við nemendur Reykholts þennan vetur tilraunadýrin og létum okkur bara líka. Allt í anda Snorra og vísdómsins! 

Snorri hefur reynst lífsseigur og er það vel. Frábært ef álíka kraftur yrði settur í uppbyggingu á fæðingarstað hans, Hvammi í Dölum. Þaðan er margs að minnast, ekki síst kvenna og barna þeirra. Að ógleymdri sjálfri formóðurinni djúpúðgu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband