Góð var morgunferðin fram Eyjafjörð; litfagur blómgróður í vegarköntum. Upp að Möðrufelli og þaðan hjá Miklagarði - margar dulsagnir af þessum slóðum - og áfram inn dalina.
Mér varð hugsað til Laxness á þessari ferð minni. Hann fór mikið um þessar slóðir og hélt gjarnan til á Skáldstöðum hjá Kjartani, vini sínum, merkum bónda og mögnuðum draummanni.
Í Heimsljósi talar Laxness um fegursta blómið:
...það lifir í huldum stað, fæstir fá nokkurntíma að sjá það, mörgum sést yfir það, nokkrir kunna ekki skil á gildi þess, þeir sem uppgötva það munu ekki sjá annað blóm síðan. Allan daginn hugsar maður um það. Þegar maður sefur dreymir mann það. Maður deyr með nafn þess á vörum.
Flokkur: Bækur | 24.7.2007 | 12:36 (breytt kl. 12:38) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.