Draumar á Norðurslóð

Haustið er mætt á svæðið í öllu sínu veldi. Þetta er blautur og hrár Sunnudagur hér í Eyjafirði en hvað um það. Allt fram streymir...

 Nú eru það Draumar á Norðurslóð sem hugað verður að þessa haustmánuði. Margar skráðar heimildir eru til um drauma íslenskra bænda og sjómanna í samspilinu við okkar óblíðu Náttúru Norðurslóða og spurning hvað er t.a.m. líkt með þessum draumförum þeirra og draumum Vestur - Íslendinga í Kanada fyrr og nú. Samanburður síðan við drauma þarlendra Indíána eins og Cree og Iroqouis sem reyndust íslensku landnemunum svo vel. Eins hvort eitthvað leynist í skrifum víðförulla landa vorra á fyrri tíð s.s. Vilhjálms Stefánssonar, heimskautafara. Er eitthvað til um hans drauma og hvernig líf hans í tveimur menningum kann að hafa litað draumlífið? Verðugt viðfangsefni og til þess fallið að tengja gamlan og nýjan tíma við sammannleg gildi.

Nema enginn sjái vægi draumanna lengur og lífið sé martröð í vöku og svefni; að allt sé á því hverfanda hveli sem Einar Már talar um í Bréfi til Maríu. Viðsjár svo miklar nú og framundan að annað eins hefur Veröldin vart upplifað. Ekki bara stórar sögulegar breytingar sem verða á ca. 30 - 50 ára tímabili, heldur líka umbyltingar í langtíma (árhundruðir og - þúsundir). Þjóðfélögin ekki lengur til. Eða eins og segir í góðri mynd, þjóðirnar eiga ekkert lengur nema þjóðfána sína. Stórfyrirtækin eiga hnöttinn með manni og mús.

Verst hvað við látum sefjast - og sefast... 

 Einar Már: Það eina sem kannski er eftir af venjulegri rás tímans er hljóðfallið sem tölvukynslóðirnar marka, þegar þær taka við hver á eftir annarri. En tími mannlífsins er horfinn. Þannig er tæknidýrkunin í raun enn róttækari kollsteypa en nokkur siðaskipti sem á undan hafa gengið. (Bréf til Maríu, bls. 252).

Kannski Náttúran sjálf taki í taumana - og sé þegar farin að taka í taumana? 

Draumarnir; farvegir duldrar sköpunar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband