Gaman var að sjá myndina um Vivian Thomas í sjónvarpinu um helgina. Bláu börnin hans - Blue babies - við Johns Hopkins háskóla og tillegg hans til vísindarannsókna á hjartagöllum barna. Þarna voru fyrstu hjartaaðgerðirnar gerðar og síðan þá hafa m.a. mörg íslensk börn farið utan til aðgerða og náð ótrúlegri heilsu.
Ein af merkustu vísindauppgötvunum Vivian gerðist í gegnum draum; hann dreymdi mjög sérstæðan tákndraum sem hann réð ásamt starfsbróður sínum fyrir því hvernig best væri að sauma fyrir í þessum hjartaaðgerðum!
Svona eru nú víðlendur draumanna magnaðar og hafa mörgu góðu skilað í skapandi lausnum eins og í vísindum, bókmenntum og listum, og svo auðvitað í daglegu lífi venjulegs fólks.
Gagnvart spuna- og blekkingameisturum nútímans sem gegnsýra alla umræðu og hafa með orðfæri sínu og stöðugri klifun lyginnar, varanleg áhrif á hugmyndir manna, þá eru draumarnir eitt það ómengaðasta sem við eigum...
Draumarnir virðast vinna úr mörgu sem okkur er hulið og birta okkur síðan svörin. Þ.e.a.s. svo fremi við gefum okkur tíma til að hlusta eftir þeim.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.