Það var á fyrsta sunnudegi í Aðventu 2007 uppi á Montmartre - miðju hinnar frönsku heimsmyndar á Signuvöllum. (Svipar til heimsmyndar Íslendinga, Rangárvalla og Steinkrossins). Heilagur Denis gekk niður af Montmartre hæð með höfuð sitt eftir að vera hálshöggvinn.
Allt getur gerst og ekkert er nýtt undir sólinni. Þessu til undirstrikunar gnæfir ægifögur Sacre - cæur Basilíkan þar yfir og allt um kring.
Úrhellisrigning á Place du tetre. Jú; málarar að selja sín verk uppvafin á torginu en engin að mála eins og við er að búast. Búnar að kaupa birgðir af Comtesse du Barry konfekti í einni af litlu vinalegu búðunum að gauka að vinum og vandmönnum. Og að spá í hvort við ættum að setjast inn á eitt kaffihúsanna eða reyna að fá bíl strax heim á hótel.
Héðan sér vel í klukkuna í turni Basilíku hins heilaga hjarta. Hún slær sex. Nú er eins og hellt sé úr fötu. Ha? Þarna er hann þá kominn - og óumbeðinn.
Upphitaður leigubíll og bílstjórinn; ja, hann kom okkur verulega á óvart. Fyrrum franskur sjómaður við Íslandsstrendur, en úr nútímanum þó. Hafði dvalið 4 ár við sjómennsku á Fróni og mest í Vestmannaeyjum. Lenti meira að segja í Gosinu! Vakinn upp aðfararnótt 23. janúar, 1973; eins og hann sagði: ég hélt að verið væri að ræsa okkur á sjóinn!
Ég lenti nefnilega í Gosinu líka, var að kenna í Eyjum þennan vetur, sagði ég á innsoginu, (sterkt einkenni á franskættuðum Íslendingum). Vakin upp þessa frægu nótt - trúði ég eigin augum? - (þar sem ég bjó í Landlyst, elsta húsi bæjarins).
Báðum fannst okkur upphaf gossins ótrúlega fögur sýn. Fann þarna andlegan skyldleika í lýsingunni. Horfði nú betur á sjómanninn/leigubílstjórann. Ekki laust við svip af langafa?
Andartakið þegar tíminn brá á leik þarna á Montmartre, eða var þetta kannski e.k. leiðsögn frá forfeðrunum frönsku? Hef svo sem alltaf vitað að það væri húmör í ættinni þarna af Suðausturlandi...
Au revoir!
Flokkur: Bækur | 9.12.2007 | 15:46 (breytt kl. 16:21) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.