Nýr tími og nýr heimur í Íslandskortunum

Þá er það upprunnið, árið nýja 2008! Með stæl að vanda hér á Fróni og sjaldan fegurra að sjá allar millurnar springa yfir höfðum vorum - uss, uss, höfði voru, minn gamli íslenskukennari úr Reykholti myndi nú leiðrétta þetta, Jónas Árnason, alþingismaður, orðhákur og skáld með meiru - í skíru skyggni þessa áramótahimins.

Jæja, flott skal það vera. Eða fuss og svei og svartsýni? Í það minnsta framfarir í sprengjunum; nú sáust t.a.m. gylltir bombudraumar á lofti og mikið af þeim. Nýjasta nýtt frá Sjanghæ. 

Þetta er bara svona sakleysislegur dagur fullur af regni og að jafna sig eftir hviður næturinnar. Nýársdagur 2008. Biðjandi um frið og réttlæti í mannheimi. Yfir matartilbúningi með vínartónleika hljómandi frá skjánum. Nóg gyllt þar og dátt í höllinni.

Nýtt ár lofar góðu; það er bara þetta með okkur, Frónbúana, í þessu upplýsinga og harðsoðna/hraðsoðna póstmóderníska samfélagi, eigum við enn talsvert í land með að skilja verðmæti. Að sjá hve hallærislegt, beinlínis rangt, það er að traðka endalaust á þeim sem ekki hafa innherjaupplýsingarnar á reiðu og vita ekki að þeir eru staddir í miðju leikriti; peð í peningaskák. Meðferð persónuupplýsinga jaðrar við mannréttindabrot. Annars frábært land með frábærri þjóð. 

 Við eigum víst 40 ára afmæli í ár, Reykhyltingarnir hans Jónasar. Það vantar svona Jónasa. En trúlega er þróunin sparsöm á þá. Þetta eru ekki auðveld eintök í framleiðslu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband