Enn í Ítalíudraumunum og Rómargöngunni og þaðan í gegnum Skotland og Stirling/Balquhidder yfir til gamla Fróns. Nú er það ferð Madonnufresku; eftirmyndarinnar.
Páskaförin til Montréal frestaðist nefnilega. Aukin veikindi, en nú komið í betra horf hjá pabba. Blessuðum.
Ein eftirmynd Madonnufreskunnar úr Basilíku Heilags Frans í Assisi eftir Cimabue (eða diPepo) ferðaðist upp Evrópu með fjölskyldu, sem flúði Þýskaland nasismans. Endaði í Balquhidder í húsi einu við Loch Voil, uppi á fagurri skógarhæð. Dvaldi þar árum saman uns eigandinn féll frá, háöldruð og elskuleg læknisekkja, hverrar sonur arfleiddi okkur að þessari fallegu eftirmynd freskunnar. Madonna og barn og heilagur Frans auðmjúkur til hliðar.
Freskan hefur fylgt okkur allar götur síðan. Og um hana fjallar Umberto á draumþinginu í sumar í Montréal ásamt fleiri seinni myndverkum Endurreisnarinnar. (Giorgio Vasari reit um ævi freskuhöfundarins, Cimabue, og þar með fyrstu listasögubókina, Le Vite).
Fratello Sole; heilagur Frans var sagður kunna fuglamál. Elskan á sköpunarverkinu - mönnum og málleysingjum - svo sterk að hindranir heimanna féllu. Allt varð ofurskírt eins og í Sálminum til sólarinnar, sem talið er fyrsta frumsamda verkið á ítölsku. Eða í friðarbæninni:
Ger mig að farvegi friðar þíns...
Já; ekki veitir af miskunnsemi í þennan hrjáða heim okkar.
Flokkur: Bækur | 24.3.2008 | 14:55 (breytt kl. 15:15) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.