Sorgarfréttir úr Spilavítinu Ísland þessi dægrin og ekki ofsögum sagt.
Fyrirbærið OPM, eða other people´s money, annarra manna peningar, eitt heiftúðugasta einkenni öfgakapitalisma, sýnir nú sitt rétta andlit. Morgunljóst af atburðum síðustu daga að annarra manna peningar hafa verið notaðir í flottræfilsháttinn hér á Fróni og eins til að spila sig stórt í útlandinu.
Engin ráðaöfl gangast þó við ábyrgð á stöðu mála og er það litlu skárra - og dugir ekki að nudda sínar aldrei í kalt vatn drepið hendur á tiginnmanna og - kvennamótum heima og heiman...
Var einhver að misskilja leikreglur lýðræðis? Svefnhöfugt Alþingi og seðlabanki á kenningastiginu.
Það dugar ekki að vísa hver á annan og segjast hafa varað við því skelfingarástandi, sem nú sýnir sig. Af hverju gerðist þá aldrei neitt? Og hver ber ábyrgð á því þegar upp er staðið?
Minnir óneitanlega á ævintýrið um Einbjörn, Tvíbjörn. En það var ævintýri; þetta hér og nú er veruleikinn framan í þessa litlu þjóð.
Vissulega er alheimsleg fjármálakreppa, en því til viðbótar er okkar litla íslenska hagkerfi alveg einstakt í veröldinni og súrrealískum lögmálum háð, að virðist. Og nú sýnir sig einmitt hve höllum fæti hinn íslenski neytandi stendur í þessum alþjóðlegu en líka heimatilbúnu hamförum.
Mörg mál, sem voru brýn úrlausnar áður en útrásin svokallaða hófst og til staðar í gamla bankakerfinu, hafa nú að 30 árum liðnum, þ.e. ef miðað er við innreið frjálshyggju og myntbreytingar með öllu tilheyrandi, enn ekki verið leyst. Þar er m.a. átt við réttarstöðu og mannréttindi hins almenna neytenda, eins og gagnvart greiðsluaðlögun skuldara, endurskoðun gjaldþrotalaga og vaxtalaga og hámörkun okurvaxta.
T.a.m. voru ekki íslenskir okurlánarar svo hataðir á fyrstu áratugum 20. aldar, að það lá við að þeir væru skotnir á færi?
Til þess að taka af öll tvímæli. Þetta er ekki ástarbréf enda samkvæmt nýjustu visku úr fjármálaheiminum, er gerður greinarmunur á spilapeningunum í Spilavítinu Ísland. Alveg eins og raunar lengi hefur verið gerður greinarmunur á spilamönnunum, sem þar gera sig sér glaðan dag með annarra manna peninga.
En vonum það besta þess minnug að margur verður af aurum api.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.