Draumar á aðventu og stjörnufans á Sléttu

Þessi vika, sem nú er að líða hefur verið sannkölluð þeysireið yfir landið og komið manni upp úr kreppuhjólfarinu. Land vort lætur eigi að sér hæða...

Fyrst var það suðurferð fyrsta sunnudag í aðventu, að hjálpa dótturinni við flutningana af Vestugötu á framtíðarheimilið á Holtsgötunni með öllu því frábæra 360 gráða útsýni, sem hún fær þar af efstu hæð.

Síðan norður yfir heiðar aftur með stuttri dvöl í höfuðstað Norðurlands og á jarðarför minnar gömlu vinkonu héðan úr Fjólugötunni, sem nú heldur sinni för áfram um nýjar lendur handanheima.

Því næst á slóðir feðranna í Þistifljörð, Þórshöfn og Sauðanes. Á skemmtilega aðventuhátíð þar með erindaflutningi um draumana hans Jóa frá Ásseli. Draumtrú lengi verið sterk fyrir austan og draumsýnir inn í ýmsa heima þekktar langt aftur í aldir. Svo sem hin kunna sýn forföður vors í Sauðanesi, séra Jóns Bessasonar. En skömmu fyrir andlátið, dreymdi séra Jón inn í æðri heim, svo ósegjanlega yndislegan, eins og honum varð á orði, er hann lýsti því, sem fyrir augu bar í draumnum, blessaður.

Á heimleið norður yfir Hálsana og Sléttu á föstudagkvöld með sjörnufansi blikandi yfir Harðbaki og léttleikandi Norðurljósasjóvi.

Já; hvað getur maður svo sem beðið um meira?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband