Kári blæs hressilega

Óhætt að segja að Kári blási hressilega hér á Fróni þessi dægrin. Jagdraumurinn frá um daginn kominn fram; jag í draumi fyrir óveðri. Skrítinn þessi draumheimur og hvernig hann virðist geta átt sér líf handan venjulegs rúms og tíma. Eða er framtíðin hér nú þegar?

A.m.k. er ljóst að Kári setur strik í reikninginn: málararnir geta ekki hangið utan á húsinu í dag að klára að mála stafninn. Jæja.

Íslenskir stjórnmálamenn gengnir í björg með Orkuveitumálin og spurning hvaða umturnun muni eiga sér stað þar... 

  


Sigla himinfley...

Hér hefur skýjafar verið einstakt síðustu tvo daga og kvöld; sigla himinfley. Hlýindi í veðri og tími nýttur til garðverka. Laufmikið gullregnið og garður alþakinn fallandi skrúði. 

Magnús Þór með gott lag í gærkveldi Lullabye to peace - einstakur höfundur sem mætti meta betur. 

Kyrrlátur en regnvotur sunnudagur.


Súrrealískur veruleiki þessa hversdags

Jag í draumi sem ég heyrði eða var það jag í borgarstjórn, draumur eða veruleiki? Kannski leiðindaveður í aðsigi skv. gömlum draumtúlkunum sjómanna.

Rannsóknarverkefni við HA, Draumar íslenskra sjómanna, verður gaman að sjá hvernig til tekst. Kannski var líka hvalur í draumum næturinnar. En mér skilst að það sé sjómönnum fyrir góðu að dreyma hval. Veit ekki með aðrar starfsstéttir þó.

 Italia mia! Pælingar í ítalskri draumhefð og hinni draumkenndu borg, litlu Flórens, Lecce, neðan á ítölsku ilinni. Fellini og draumar í kvikmyndum hans á borð við  La  Strada, La Dolce Vita og 8 1/2. Ítalía og skór; fyrsta tenging mín þangað svo skrítilega sem það nú hljómar.

Og Umberto Eco að gefa út nýja bók, um Ugliness - ljótleikann. Á von á að ljótleikinn verði fagur í hans meðförum. 


Straumhvörf?

Straumhvörf að verða á Fróni og hamfarir í borgarstjórn upphaf á nýjum kafla? En vissulega getur brugðið til beggja vona; hingað til hafa íslensk stjórnvöld, sama á hvaða stjórnstigi, buktað sig fyrir valdi auðsins, sama hvernig hann hefur verið fenginn. Heimóttaskapur og þrælslund undir formerkjum frjálshyggju. Heilmikið hafarí í gangi og þjóðin gerð meðvirk í dramanu en þessi farsi hefur bara svo oft áður verið leikinn - og síðan ekkert í raun gerst, því er nú ver.

 The Lives of Others; sá hana um helgina, meistarastykki. Stasi alls staðar og spilað á margslungna strengi. En Múrinn féll. Þrátt fyrir allt getur margt gerst og þróunin færst áfram. Kannski líka hér. 


Sagan er að gerast

Sagan er að gerast. Ó, já.

Friðurinn úti í höfuborginni stuttu eftir að friðarljósi Lennon var hleypt í loftið! Söguleg tímamót á nýju tungli og hamfarir í kortum borgarstjórnar sem sér ekki fyrir endann á. Það þarf nefnilega meira en handsal - eða friðarsúlu - til að koma á og halda friði. Eða bara yfirhöfuð vera til friðs.

Hvernig var þetta nú aftur:

því þá munum við sundurslíta friðinn...


Regndans í sól

Regndans í sól á heimleið í dag. Og soft jazz á fóninum. Pavarotti - blessuð sé minning hans - er full kröftugur á svona ferð um Landið bláa.

Við sáum til friðarsúluljóssins hans Lennon frá Viðey á leið okkar úr Háskólabíó, mæðgurnar, í fyrrakvöld. Svona dauft stroll beint upp; eða var þetta Máninn að bregða á leik? Nei, víst ekki; sannarlega Lennon upphafinn eða í niðurhali!

Eftir magnaða mynd og leik í 3:10 to Yuma. Örlagavefurinn flókinn og persónurnar eftir því en allt hnígur að samræmi, sátt og friði þrátt fyrir allt, eða hvað?


Suður yfir heiðar - Pavarotti forever í farteskinu

Suðurferð í kortunum og viðrar vel. Að sjá landið í gulum og dumbrauðum búningi og haustsól á fjöllum. Pavarotti forever með í för - og svo er það Imagine og friðarsúlan hennar Yoko í Viðey í kvöld. Vonandi bjartviðri og við náum að berja ljósgeislann augum yfir Sundin blá og minnast Lennon. En sama hve hrifin ég er af Lennon og Imagine boðskapnum, þá vil ég nú frekar að stjörnur festingarinnar fái að njóta sín þ.e. ef velja þyrfti á milli þeirra og súlunnar góðu.

 Starry starry night...

 

 


The saints - og margræðni hlutanna

Á votri leið minni úr Glerárgötu og niður Fjólugötu áðan - með haustfagran Íþróttavöllinn á aðra hönd - kom hið gamla góða dixíelag þeirra New Orleansbúa The Saints upp í hugann. Hlutirnir geta verið svo makalaust margræðir; og óræðir ef svo ber undir. The Saints var nefnilega upphaflega útfararsálmur og er raunar enn. Þetta ólíkindatól þróunin hefur þó hagað því svo til að nú er lagið baráttulag margra fótboltaliða en heldur þó áfram velli sem útfararsálmur. Og greinilegt að hér er búið að íslenska hann hvort sem það voru nú KA menn eða Þórsarar sem sungu hástöfum á Vellinum í fyrrakvöld: When the saints go marching in....

 Það er kannski eins með Völlinn; hver skyldu verða örlög hans? Var þetta upphafið að endinum?


When the saints... og Íþróttavöllurinn

Gulur dagur og rauður; appelsínugulur á milli. Eins og hendi sé veifað hefur tjrágróðurinn hér á þessum gamla árfarvegi Glerárinnar klifrað litrófið. Og þegar ég gekk upp götuna Fjólu undir kvöldmatinn í gær og dáðist að þessari heillandi litadýrð, barst mér ómur úr gjallarhorni af Íþróttavellinum - frá þessu heita hjarta bæjarins. Ekki um að villast; When the saints go marching in var sungið hástöfum af miklum mannfjölda í nýrri íslenskri þýðingu að hætti fótboltabulla. Það var leikur í gangi á Vellinum og fólk í öllum stúkum. Greindi ekki vel orðaskil en hvað með það. When the saints go marching in, þá eru the saints marching in...! Eitthvað á þá leið að þið eruð ágætir og frábærir strákar.

 Já, það væri óskandi að saints - dýrlingar þessa heims og annars haldi verndarskildi yfir þessu hjarta bæjarins, ef ekki sem Íþróttavelli, þá sem fögrum friðarreit og skemmtigarði. Talandi hér fyrir stuttu um skilti eða lógó, þá er nú blikur á lofti og mikil ásælni í þetta aðal lógó Akureyrar. Er það ekki dæmigert fyrir hamfarir okkar tíma?

 When the saints...

 

 


Kaupfélagshornið í enn einni útgáfu?

Kaupfélagshornið í enn einni útgáfu? Varð mér hugsað þegar ég keyrði niður Gilið seinni partinn. Þar var þá verið að vinna við skilti. Ó, God. Var verið að taka Eymundsson niður á gamla Kaupfélagshúsinu? Sem nú er í eigu eins veldisins - hætt að nenna að leggja öll félögin og nöfnin á minnið -  eins og svo margt fleira hér um slóðir. Bíð eftir að sjá dásemdina á morgun, nýja skiltið eða hvað og nafnið sem maður þarf kannski ekki einu sinni að leggja á minnið. Því: það kann að verða stutt í næsta skilti.

 Þessi skiltaskipti eru nú farin að hlaupa á tölum - kannski ekki tugum en samt - og það bara á örfáum árum. Ný félög og kennitölur, yfirtökur, samrunar osfrv. osfrv. Íslenska efnahagsundrið; já, vissulega má lesa um það á skiltunum á þessu stærsta götuhorni höfuðstaðar Norðurlands, hinni íslensku Barcelóna. 

 Fjörðurinn er stór, góðu heilli, nú um stundir þegar andrúm heils bæjar er farið að stjórnast

af skiltum...

 Eymundsson enn á sínum stað í dag! Kannksi var bara verið að pússa skiltið í gær! Það þarf nefnilega líka að pússa fíneríið. Eða kannski það hafi verið nær rokið af í hvassviðrinu þessi dægrin.

Jamm og jæja. Sjáum til.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband