Luna - Ix Chel á votum mánudegi

Mánudagur er réttnefni. Máninn nær fullt hús. Luna. Ix Chel þeirra Mayanna. Og nú er Mel Gibson að flytja til næsta bæjar við Guatemala, Kosta Ríka. Alltaf sjálfum sér samkvæmur, drengurinn sá. Lét sér ekki nægja að setja upp heimsendi Mayanna í Apocalypto heldur hefur hrifist af menningu Mesoameríku svo um munar og vill nú eyða ævinni þar. Skil hann svo sem...

Blautur og hrár dagur. Jæja. Það er víst komið ærlegt haust.

Og á þessum ágæta mánudegi í aldanna skaut, fóru Draumar á safni niður. Sýningin búin að standa í tæpar 7 vikur og gengið vonum framar. Gekk raunar eins og í góðri sögu að taka hana niður. Hvar hún ber upp næst verður spennandi að vita.

 Lifrapylsa og nýjar kartöflur...


Gutti jógi á Héraði - og draumarnir

Í dag er það Gutti jógi á Héraði - langfrændi að austan og gamall vinur - og draumarnir hans. Hann er m.a. að skrifa um '68 kynslóðina í nýrri bók, Á fleygiferð um eilífðina, í svipuðum dúr og Einar Már í sinni bók Bréfi til Maríu. Gutti, aka Guttormur Sigurðsson, skáld og kennari; þessi ágæta kynslóð okkar sem var vökul en er nú sofin, og martröð nútíma samfélaga, etc. 

 Draumarnir hans Gutta leika líka sitt hlutverk og varða veginn. Bæði Einar Már og Guttormur taka mark á draumlífi sínu og gera nokkur skil í bókum sínum.

Skemmtileg og snörp lesning. Einlægur að vanda í sinni sannleiksleit. Gott ef Guttormur hefur ekki fundið sína kosmísku miðju og þar með sinn sálarfrið...


Green mountain - Li Po

Skáldskapur Li Po kemur í hugann í sömu andrá og Guilin þar sem Gula Fljót hringar sig í kyrrlátu landslaginu og fjöllin slúta yfir með sínum spekibrag.

 Ljóð Li Po Green Mountain er í mestu uppáhaldi:

 

You ask me why I dwell in the green mountain;

I smile and make no reply for my heart is free of care.

As the peach-blossom flows down stream and is gone

into the unknown,

I have a world a part that is not among men. 


Hið fegursta undir himninum - Guilin

Ferðalag til Guilin eftir viðkomu á videóleigu...

Hreint frábær leikur Edward Norton og Naomi Watts ofl. í The painted veil sem ég sá í gærkveldi og byggð er á sögu Somerset Maugham. Gerist í Kína á tímum kólerunnar snemma á 20. öld - ástarsaga ungra breskra hjóna; sometimes the greatest journey is the distance between two people.

Gefur góða innsýn í sögulegar hræringar þess tíma, menningarleg áhrif og átök vesturs og austurs. Kaþólskt trúboð og þjóðernishræringar.

Tónlistin líka stórkostleg.

En það besta þótti mér að myndin er í raun og veru tekin upp í Kína og að mestu í Guangxi héraðinu í hinum ævaforna bæ Guilin á bökkum Li. Landslagið hér með ávölum hæðum, strýtufjöllum og bugðóttum ám margrómað að fegurð. Kínverjar kalla það hið fegursta undir himninum.

 


Draumar á Norðurslóð

Haustið er mætt á svæðið í öllu sínu veldi. Þetta er blautur og hrár Sunnudagur hér í Eyjafirði en hvað um það. Allt fram streymir...

 Nú eru það Draumar á Norðurslóð sem hugað verður að þessa haustmánuði. Margar skráðar heimildir eru til um drauma íslenskra bænda og sjómanna í samspilinu við okkar óblíðu Náttúru Norðurslóða og spurning hvað er t.a.m. líkt með þessum draumförum þeirra og draumum Vestur - Íslendinga í Kanada fyrr og nú. Samanburður síðan við drauma þarlendra Indíána eins og Cree og Iroqouis sem reyndust íslensku landnemunum svo vel. Eins hvort eitthvað leynist í skrifum víðförulla landa vorra á fyrri tíð s.s. Vilhjálms Stefánssonar, heimskautafara. Er eitthvað til um hans drauma og hvernig líf hans í tveimur menningum kann að hafa litað draumlífið? Verðugt viðfangsefni og til þess fallið að tengja gamlan og nýjan tíma við sammannleg gildi.

Nema enginn sjái vægi draumanna lengur og lífið sé martröð í vöku og svefni; að allt sé á því hverfanda hveli sem Einar Már talar um í Bréfi til Maríu. Viðsjár svo miklar nú og framundan að annað eins hefur Veröldin vart upplifað. Ekki bara stórar sögulegar breytingar sem verða á ca. 30 - 50 ára tímabili, heldur líka umbyltingar í langtíma (árhundruðir og - þúsundir). Þjóðfélögin ekki lengur til. Eða eins og segir í góðri mynd, þjóðirnar eiga ekkert lengur nema þjóðfána sína. Stórfyrirtækin eiga hnöttinn með manni og mús.

Verst hvað við látum sefjast - og sefast... 

 Einar Már: Það eina sem kannski er eftir af venjulegri rás tímans er hljóðfallið sem tölvukynslóðirnar marka, þegar þær taka við hver á eftir annarri. En tími mannlífsins er horfinn. Þannig er tæknidýrkunin í raun enn róttækari kollsteypa en nokkur siðaskipti sem á undan hafa gengið. (Bréf til Maríu, bls. 252).

Kannski Náttúran sjálf taki í taumana - og sé þegar farin að taka í taumana? 

Draumarnir; farvegir duldrar sköpunar.

 


If there were dreams to sell...

If there were dreams to sell

what would you buy?

 Þetta hafði góður maður á orði eitt sinn.

Já; hvað er það svo sem sem við vildum helst af öllu í áttavillu nútíma þjóðfélags?

Kannski einhver svör fáist við lestur bókar Einars Más prófessors í miðaldafræðum við Svartaskóla í París - Bréf til Maríu - sem mér var að áskotnast. Eða, kannski öllu heldur fleiri spurningar?

Kannski Sæmundur fróði forfaðir vor og fyrrum nemandi við sama skóla, hefði glaðst yfir þessari mjög svo tímabæru orðræðu.

Sjáum til.

 

Merkilegar plánetuafstöður þessi dægrin en lítt viðrar til stjörnuskoðunar. En...

Allt mun eiga sína rás þrátt fyrir það.

Það rignir.

 


Gróður og ávextir Jarðar

Gróður og ávextir Jarðar í öndvegi. Tími uppskerunnar og mikið um bláber í firðinum þetta haustið. Ýmsir leynistaðir...

Frystikistan nánast full og gott til að hugsa í vetur. Nú er nefnilega að koma betur í ljós hve hollur ávöxtur bláberin eru.

Samt; í nútímanum verður það æ skrítnari tilfinning að fá eitthvað svona ókeypis og það í miklu magni.

Á-vextir, ekki vextir.

Og þar með ekkert okur.

Verði okkur að góðu! 


Chac segir til sín á Fróni!

Já, ekki laust við að Chac segi til sín hér á Fróni þessi dægrin; það hefur rignt án afláts, mikið rok og þrumur sl. sólarhring. Er komin heim í Eyjafjörðinn, það er ég þó viss um enda þótt líkt sé að þrumuguð þeirra Mayanna og sá sem færir þeim regn og vatn til blessunar - Chac - leiki hér sínar háloftalistir.

 Svona var þá heimkoman; vot lending eftir nokkra slurka af gininu Gordon dry og erfiða stólsetu í annars ágætu beinu flugi Heimsferða frá Montréal. Bara gott mál!

 Já, tíminn; Dreamspell þeirra Mayanna. Kannski lifum við í röngu tímatali og þar með í rangri tímavitund og allt í vitlausum takti fyrir vikið.

 Líkti ekki skáldið góða tímanum við fugl:

 

Tíminn, hann er fugl sem flýgur hratt.

Hann flýgur máske úr augsýn þér í kveld. 


The Fountain og sköpunarsaga Mayanna

Deigla er sannarlega réttnefni fyrir ýmsa sköpun hér í Montréal. Komst að því í gærkveldi þegar við vorum að horfa á mynd Darren Aronofsky - þess sama og gerði bæði Pie og Requiem for a Dream - að hingað komu Darren og félagar til að fullgera The Fountain eftir alls kyns hindranir áður. Montréal reyndist þeim vinin í eyðimörkinni.

Og úr varð merkilegt verk sem hefur sköpunarsögu Mayanna að leiðarljósi og hugmyndir þeirra um the First Father sem skapaði heiminn úr sjálfum sér, tíma og rúm, líf, dauða og endurfæðingu.

 Myndin er byggð á þremur sögum sem fléttast saman í fortíð, nútíð og framtíð. Leitin að Lífsins Tré útfærð í mannlegum reynslusögum.

Takmarkið er Einingin. Heimað í Himingeimi.

Microcosmos. Macrocosmos. Og öfugt.

 As above so below,

as below so above.


Deigla í Konungsfjalli

Sannkölluð  deigla menningar hér í Konungsfjalli. Hvort sem rölt er niður i Gamla Bæ, kíkt í China Town eða hangið í Chapters að hætti bókabéusa.

 Allt undir sólinni...

 Ýmis draumviska féll mér í skaut á þessu innkikki mínu í Chapters eins og um skapandi dreymi í bókmenntum og listum. Verður úr nógu að moða þegar heim kemur. Gott að hugsa til þegar skammdegið færist yfir. Nú er heimferð yfir Atlantsála í kortunum.

 Svo er það tímatal Mayanna; hef verið að lesa mér til um hve merkilega nákvæmir þeir voru í sinni geimskoðun og kortlagningu himintunglanna. Hvað bíður okkar 2012 þegar tímatali þeirra lýkur, er stóra spurningin og styttist í svörin.

 Mannfólkið, stórt og smátt, hresst að vanda á Grosvenor Ave.  Bestu þakkir, sweet darlings.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband