Vor Frúar basilíkan í Montréal og Hinn Alvakandi Búddha

Vor Frúar Basilíkan í Montréal er sú fegursta sem ég hef komið í og hef ég heimsótt þær margar kirkjurnar og guðshúsin á mínum ferðum. Notre Dame þeirra hér; yfir 70%  íbúa frönskumælandi og kaþólskrar trúar. En allir hópar eiga sitt pláss í Konungsfjalli án teljanlegra árekstra og er það vel. Fórum í basilíkuna í gær öll fjölskyldan.

Litlir stúfar léttir í lundu og við stóra fólkið enn að melta sushi gærkvöldsins. Þar gætti Hinn Alvakandi Búddha húsakynna og ekki laust við að glitti í kankvíst bros undir árvökulu augnaráði sem ekkert fer framhjá hvorki þessa heims né annars; þessa himins né annarra himna.

Aftur góður dagur í dag - sunnudagur enda þótt sólin sé með mildara móti og ekki laust við að norðlenskur svali leiki um loftin blá.

 


Að meika það í Konungsfjalli

Þá er komið að því. Haldið af stað til Konungsfjalls! Montréal. Hefði þurft handbook for dummies til að pakka niður fyrir ferðina; veðrið hér eins og með seinni haustskipum en veðrið þar eins og jó jó, sól og hiti einn dag en norðlenskur svali hinn. Jæja, hlýt að meika það...

 Margt á döfinni, bæði vinna og frí með börnum og buru. Litlir glaðir stúfar að vanda. Og eflaust munum við eyða mestum tíma í sandkassanum góða; nýkominn í bakgarðinn heima að Grosvenor Ave.

Konungsfjall, here we come. 

 


Áfangar - og áfangastaðir

 Merkilegar þessar tilviljanir í lífinu eða hvað. Fyrsti tölvupósturinn frá BNA að aflokinni velhepppnaðri sýningaropnun Drauma á safni, barst frá nýkjörnum forseta Alheimssamtaka draumfræðinga, David Khan. Blæs manni baráttuanda í brjóst; að halda áfram í draumunum.

Flug - draumar hafa tekið völdin í sál og sinni eftir að Draumar á safni fóru í loftið ásamt vefsíðu Skuggsjár www.skuggsja.is og bæklingnum góða í draumalitnum sem við Villi völdum eftir ýmsar pælingar. Já; einmitt: fjóluliturinn! Allt, góðir áfangar að ná.

 En mínir flugdraumar núna eru alveg niðri á jörðinni og raunar á frönsku. Snúast um tvær ferðir framundan, aðra til hinnar gömlu nýlendu Frakka í Vesturheimi, Quebec - til fjölskyldunnar í Montréal - og hina til hinnar öldnu en glæstu höfuðborgar á Signubökkum. 

Spennandi flugferðir og - draumar framundan á næstu vikum og mánuðum. Ekki bara áfangastaðir heldur líka annað heima...


Draumagengi

Þá er þetta að smella og sýningin Draumar á safni nær tilbúin fyrir formlega opnun á morgun. Óhætt að orða það svo að setrið Skuggsjá búi við draumagengi þessa dagana. En hefur kostað sitt í yfirlegu og öðru. Jæja. Tími uppskerunnar...

Merkilegt með þessa sköpun, hún er náskyld draumunum og fantasían sjaldan langt undan. Og stundum þarf að mæta óvissunni og læra af visku hennar. En vonandi þó halda sig svona þokkalega á jörðinni, missa ekki alveg jarðtenginguna.

 Í það minnsta er ekki alfarið eftirsóknarvert að lenda í sporum Sue Blue/Kittie Grace í Inland Empire sem mér tókst að horfa á í gærkveldi; með þeim lengri. Draumkennd fantasía - og þó. Eða hvað er veruleiki? David Lynch bregst ekki bogalistin frekar en fyrri daginn né meðframleiðanda hans, leikkonunni Lauru Dern. 

Hrein ólíkindatól.


Stairway to the stars og hið fulla tungl þrítugasta.

Stairway to the stars á fóninum þennan síðasta sunnudagsmorgun í júlí. Og fullt tungl í loftunum næsta sólarhringinn. Indverskir stjörnuspekingar telja það merkasta fulla tungl ársins; skyldi guðinn Shiva minna á sig? Með eftirminnilegum hætti. Allt er draumur hans. En Shiva á sér margar birtingarmyndir. Bæði bjartar og góðar en aðrar myrkari og destrúktífari. Það er víst nóg af destrúksjón í okkar nútímaheimi; mættum við biðja um eina bjarta birtingu...

Robert Moss, sá ágæti draumfræðingur og ástralski shaman sem lærði hjá frumbyggjum þarlendum, hefur verið í sambandi. Hann er að vinna að bók um forspár í draumum sem á að koma út í haust. Og langar að forvitnast um íslenska draumhefð og vitna til. Var glaður að heyra af þekktu draumfólki eins og Drauma-Jóa og Jósefínu Njáls. Já; það er af mörgu að taka þegar kemur að forspá í draumum hér á landi. Bæði fyrr og nú.

Dreamways of the Iroquois var síðasta  bókin sem ég las eftir hann. Og það voru einmitt þessir kanadísku frumbyggjar við Lawrence fljótið eða forfeður þeirra sem gáfu Kanada nafn. Canada; þorp eða settlement. Og nú styttist óðum í mína Kanadaferð. Farin að telja niður. River Lawrence hefur kyngimögnuð áhrif á Íslendinginn ekki síður en íbúana á bökkum hennar á fyrri tíð. Sagt er að engir hafi tekið landanum jafnvel þar vestra sem Indíánar. Kenndu landnemum að lifa af harða vetur; veiða í gegnum ís ofl. Andlega skyldir - báðir trúir draumnum.

 Iroquois indíánar tala um að ef maðurinn missi tengslin við innri veruleika og draumheiminn, þá sé menning hans í alvarlegri hættu og geti leitt til endanlegs hruns. Þeir tala um að dreyma sálina aftur heim - dreaming the soul back home til húss hinna fjögurra hauka:

 

We are all here, in the generous kitchen

of the house where wings are mended.

Bird people are awkward on the ground

but we remember the high windy places

    and we will reclaim the sky. 


Yfir Fjöllin blá - Cool dances

Cool dances; í góðri djassveiflu yfir Fjöllin blá. Sannur heiðblámi og Herðubreið svo tærblá að nær sést í gegnum hana! Ekki að undra að hún hafi titilinn þjóðarfjallið svona á mörkum heimanna. Harmonerar vel við þjóðarsálina. 

 Við Voginn er litríkt mannlíf. Allur heimurinn pars pro toto mættur á svæðið. Og heiðbláminn víkur fyrir sægrænum himnapastel. Straumar leika hér um og færa klukkuna 400 ár aftur þegar allt iðaði af verslun og lífi í þessum aðalkaupstað landsins (ef frá er talinn Bakkinn). 

 Suðaustasti hluti landsins og sá sem fyrst er komið að úr hafi. Ingólfur kom hér og hafði vetursetu sinn fyrsta vetur. Tyrkir nokkrum öldum síðar.

 Minnir á afstæði tíma og rúms; Zyolítarnir í Búlandstindi eru aldagamlir. Rafurmagnaðir ljósberar.

Og minnir mig á The Five Clocks og Martin Joos; the five styles of English. Hann hefði orðið 100 ára í ár, blessaður. Einn mesti sálmálvísindamaður 20. aldar. En var rafmagnsverkfræðingur!

Síðan ég kynntist verkum Joos í gegnum doktorsrannsóknir mínar við Stirling - sem eru byggðar á tilgátu hans um að the best meaning is the least meaning -, þá hef ég vanið mig á þennan sið:

Að hafa nokkrar klukkur á heimilinu og enga eins stillta! 

Og hefur gefist vel...

Komin á mettíma aftur í Eyjafjörð. Var engin klukkan rétt stillt kannski? Eða var þetta bara draumur um gegnsæa Herðubreið etc? 


Draumgögn á Héraðsskjalasafni

Á Héraðsskjalasafninu að grúska í gömlum draumgögnum. Merkar draumminjar varðveittar hér á efstu hæð í Amtsbókasafnshúsinu nýja. Flestar handskrifaðar frá gamalli tíð við Eyjafjörð. M.a. handskrifaðar draumráðningabækur frá 19. öld!

 Hér er líka varðveitt stórmerkt draumasafn Kjartans Júlíussonar, bónda á Skáldstöðum, góðvinar Laxness. Í draumi skráðum í desember 1962, kveðst Kjartan hafa dreymt Laxness um nóttina. Mundi drauminn vel næsta morgun. En gat ómögulega rifað upp það sem Laxness talaði í draumnum og fannst miður. Kannski fleyg orð í næstu bók skáldsins...

 Já; þeir fylgdust greinilega að í vöku og svefni, vinirnir.

 Góð vinkona mín var alin upp hjá Kjartani á Skáldsstöðum og konu hans. Hún bjó hjá þeim í torfbænum til 10 ára aldurs - og er þó bara á góðum aldri í dag. Ekki að furða að Laxness hafi sótt í gamla bæinn og þá sögu sem þar sveif yfir. Sem enn var þó svo nálæg.  


Fegursta blómið það lifir í huldum stað...

Góð var morgunferðin fram Eyjafjörð; litfagur blómgróður í vegarköntum. Upp að Möðrufelli og þaðan hjá Miklagarði - margar dulsagnir af þessum slóðum - og áfram inn dalina.

Mér varð hugsað til Laxness á þessari ferð minni. Hann fór mikið um þessar slóðir og hélt gjarnan til á Skáldstöðum hjá Kjartani, vini sínum, merkum bónda og mögnuðum draummanni.

Í Heimsljósi talar Laxness um fegursta blómið:

...það lifir í huldum stað, fæstir fá nokkurntíma að sjá það, mörgum sést yfir það, nokkrir kunna ekki skil á gildi þess, þeir sem uppgötva það munu ekki sjá annað blóm síðan. Allan daginn hugsar maður um það. Þegar maður sefur dreymir mann það. Maður deyr með nafn þess á vörum.


Betra er yndi en auður

Aldanna rás segir til sín í Eyjafirði. Sagan talar hvaðanæva. Nú er t.a.m. að verða ljóst hve mikilvægur brennisteinninn var fyrir aðrar þjóðir eins og Breta. Var fluttur út frá Gásum en þar stendur nú yfir miðaldamarkaður þessa helgina. Fullyrðir Hallur Hallsson í Morgunblaðinu í dag að fyrir tilstuðlan íslensks brennisteins hafi hin ensku Rósastríð loks unnist! Það skyldi þó aldrei vera.

 Það eru ekki bara veraldlegir hlutir sem farið hafa um fjörðinn fagra heldur hefur margt þessa heims og annars varðveist. Eins og sögnin af Sigríði Eyjafjarðarsól einhverri merkustu leiðslusögn í íslenskri þjóðtrú um skilin og ferðir milli heimana. Oft var það í draumkenndri leiðslu sem fólk fór á milli.

Sigríði Eyjafjarðarsól eru eignuð orðin: Betra er yndi en auður. Þau eiga sannarlega vel við Eyjafjörðinn og íbúa hans í fortíð og nútíð - þessa heims og annars.


Talan átta - hringrás Allífsins; 8

Merk þáttaskil og góð í gær 19/07/2007 undir samtölunni átta. Táknræn fyrir hina óendanlegu hringrás Allífsins; 8.

Innilega til hamingju, mín kæra B. Átt pottþétt eftir að gera frábæra hluti í nýja starfinu. Kominn fram mjög svo einstakur draumur þinn frá Sumarsólstöðum.

The gift of the dream... 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband