Færsluflokkur: Bækur

Áfram skal haldið á Ísalandi

Áfram skal haldið inn í nýtt ár.

Það verður gott að kveðja árið 2008, hamfarir þess marka sannarlega sársaukafull tímamót hjá mörgum; skekja allt að grunni.

Alltof lítið hefur verið gert til að laga hlutina á raunhæfan hátt, eða hvaða þjóð ræður við 30% vexti? Ef kristin mælistika væri lögð á þessa stefnu og raunar einnig íslömsk, þá væri þetta háa vaxtastig hámark hins óguðlega. Say no more.

Óhjákvæmilega verða þó breytingar enda þótt þær láti á sér kræla. Gamla kerfið streitist við að deyja, gefast upp sem sjá má út um víðan völl þjóðfélagsins.

Já; það getur tekið langan tíma að deyja...

Give me a good life, eins og segir í lokaþætti hinnar mögnuðu átakasögu Austan Eden, er ekki lítið að biðja um, en sagt í auðmýkt hjartans og af fyllstu einlægni, þá er það alveg framkvæmanlegt, þ.e.a.s ef við getum stillt saman strengina.

Áfram skal haldið á Ísalandi. Saman.


Song in my heart...

Dásamlegt var að fá tvo litla stúfa frá Konungsfjalli hingað heim á Frón á fullu töfratungli 12. desember sl. en tungl hefur ekki verið svo nálægt jörðu í 15 ár. Og leiddi hugann að því hvar maður var staddur á lifsins boulevard fyrir 15 árum? Svipuð þróun hefur allt í einu skotið upp kollinum núna og þá var í gangi. Merkilegt nokk!

Litlir stúfar glaðir og góðir að vanda og með einmitt þann boskap, sem mestu gildir, og sungu hann hástöfum:

 

All I ever need is

a song in my heart

food in my belly

and love in the family. 


Draumar á aðventu og stjörnufans á Sléttu

Þessi vika, sem nú er að líða hefur verið sannkölluð þeysireið yfir landið og komið manni upp úr kreppuhjólfarinu. Land vort lætur eigi að sér hæða...

Fyrst var það suðurferð fyrsta sunnudag í aðventu, að hjálpa dótturinni við flutningana af Vestugötu á framtíðarheimilið á Holtsgötunni með öllu því frábæra 360 gráða útsýni, sem hún fær þar af efstu hæð.

Síðan norður yfir heiðar aftur með stuttri dvöl í höfuðstað Norðurlands og á jarðarför minnar gömlu vinkonu héðan úr Fjólugötunni, sem nú heldur sinni för áfram um nýjar lendur handanheima.

Því næst á slóðir feðranna í Þistifljörð, Þórshöfn og Sauðanes. Á skemmtilega aðventuhátíð þar með erindaflutningi um draumana hans Jóa frá Ásseli. Draumtrú lengi verið sterk fyrir austan og draumsýnir inn í ýmsa heima þekktar langt aftur í aldir. Svo sem hin kunna sýn forföður vors í Sauðanesi, séra Jóns Bessasonar. En skömmu fyrir andlátið, dreymdi séra Jón inn í æðri heim, svo ósegjanlega yndislegan, eins og honum varð á orði, er hann lýsti því, sem fyrir augu bar í draumnum, blessaður.

Á heimleið norður yfir Hálsana og Sléttu á föstudagkvöld með sjörnufansi blikandi yfir Harðbaki og léttleikandi Norðurljósasjóvi.

Já; hvað getur maður svo sem beðið um meira?


Upp í gegnum glerþakið

Guði sé lof! Ég segi það nú bara mitt í kreppunni. En hve frábært er að vera komin upp í gegnum glerþakið og anda loks frjáls! Minnir á frelsi bernskunnar og þá tíð þegar pabbi sagði af sér í pólítíkinni eftir að reynt var að bera á hann fé til að breyta atkvæði sínu og gefa það, á móti sannfæringu sinni, tillögu spillingarafla.

Heyr; gamli, alltaf flottur! En þetta kostaði vissulega sitt og það langt fram í tímann. En hvað er hvurs virði? Réttarríkið á leiðinni - staðföst von og trú - sem ekki má missa sjónir á og þeirri staðreynd að margir hafa látið lífið fyrir það í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Þeirra sé virðingin, sem farið hafa brautina á undan...

Já, spillingin er sannarlega ekki alveg glæný hér á Fróni. Dýrið hefur lengi lagt sinn grunn að yfirtökunni...

En nú er risinn nýr tími við sjónarrönd. Nú förum við upp í gegnum þetta skothelda glerþak íslenska okursamfélagsins, sem sjálflæg ráðaöfl hafa talið okkur trú um að væri komið til að vera í þessum besta heimi allra heima, svo maður vitni nú í Birtíng.

Upp, upp mín sál og allt mitt geð.

Von okkar er ekki veðsett eins og allt í steinsteypu, verum þess minnug, eða eins og Andy segir við Red, sinn góða vin og samfanga í Shawshank Redemption:

 

"You need it so you don´t forget there are things

in this world not carved out of gray stone.

There is something inside that they can´t get to

- they can´t touch - it´s yours." 

 

Red asks, "What are you talking about?"
 

Andy replies: "Hope." 

 


Er íslenska þjóðin sýndarveruleiki?

Við höfum séð það svart áður hér á Fróni. Munurinn er þó sá, að þá var það náttúran og hamfarir hennar, sem spiluðu stærsta hlutverkið, nú eru það mannanna gjörðir. Sextánda og sautjánda öldin urðu mönnum t.d. víða erfiðar vegna veðurfars, móðuharðinda og stóru bólu; í stóru bólu einni féll t.a.m. um 1/3 þjóðarinnar.

En nú er öldin önnur. Það er ekki bara svart yfir að líta, heldur kolbikasvart.

En birtir ekki alltaf til? Jú; maður skyldi halda það en að mörgu leyti gilda önnur lögmál nú. Erfitt að sjá að verið sé að bregðast við vanda almennings, heimila og fyrirtækja. Viðbragðið er ekki komið enn. Dauðateygjur gamla kerfisins enn í gangi. Þjóðin er bara sett á hold á meðan eins og hún lifi í einhverjum sýndarveruleika ráðandi afla; öll vel tryggð fyrir hvers kyns hamförum. 

Innviðir samfélagsins fúnir og spilling víða í stórum sem smáum einingum. Það þarf sannarlega nýtt fólk út um allt því hin ráðandi öfl hafa haft sín tækifæri og tími þeirra er liðinn. Alveg morgunljóst að sama fólkið getur ekki endurnýjað og endurskipulagt samfélagið, það hefur ekki þrek, nýsköpunarhugsun, eða siðferðilega burði til þess. Burt!

Í þeim glundroða sem blasir við, eru það fremur ýmsir hópar, sem eru áberandi frekar en einbeitt þjóðarheild, sem berst til nýrrar sóknar. Fyrir vikið eru ekki mörg ljós í myrkrinu. Það gæti reynst langdregið og sársaukafullt.

En verðum við ekki samt að trúa á ljósið í myrkrinu? 

  


Þolinmæðin þrautir...

Þolinmæðin þrautir vinnur allar, segir gamla máltækið. Lífssýn með rætur í raunverulegri lífsbaráttu og reynslu kynslóðanna hér heima.

En það má svo sem líka vitna til annars íslensks máltækis, heimskt er heimaalið barn. Kannski stór þáttur í því hvernig nú er komið; íslenskir bessewisserar, einangraðir í heiminum. Eða erum við etv. kanarífuglinn í námunni... svo tekin sé líking úr engilsaxnesku.

Verður hugsað til annarra þjóða og þrengingartíma þar og hvað af þeim má læra fyrir okkur hér.  Tökum t.d. Indland, eitt sinn eitt fátækasta ríki jarðar, en nú að verða eitt af efnahags- og tæknistórveldum heimsins. Sannarlega skin og skúrir þar og ótrúleg deigla ólíkra menningar - og trúarstrauma í aldanna rás. Langt í frá allt fallegt, hvað þá göfugt. En rís alltaf upp aftur og landið stórkostlegt eins og okkar ástkæra Frón. Sá það best á ferð minni suður yfir heiðar um daginn hve landið okkar sjálft er mikil ögrun.

 Nú er síðasti þátturinn um Indland á skjánum í kvöld. Hreint frábærir þættir og með því betra, sem sést hefur af svona þáttagerð í sjónvarpi lengi. Þakka bara fyrir mig hvort sem þáttagerðarstjórnandinn er nú Breti eður ei...

 Andlátsorð Buddha í Kushnagar eru sögð hafa verið á þessa leið:

 

All created things

must pass.

Strive on

diligently. 


Með vonina í farteskinu

Vonin er lykill aðlögunar, segir gömul speki - og ný.

Nú skiptir miklu við þá enduruppstokkun, sem er framundan í samfélaginu, að tryggt verði að almenningur fái aukin völd og áhrif s.s. sína fulltrúa í stjórnum fjármálastofnana.  Að ekki sé nú minnst á vinnu í ýmsum málum, sem varða almannahag, réttindamálum, sem fyrir löngu hefði þurft að taka til hendinni í. Lýsandi fyrir það stjórnkerfi, sem ríkt hefur hér á Fróni allt of lengi. 

Þegar vonin ein er eftir á þessum síðustu og verstu:

Eitt stykki samræmda hagstjórn og fólk með vit í kollinum og hjartað á réttum stað, takk!


Spilavítið Ísland og annarra manna peningar

Sorgarfréttir úr Spilavítinu Ísland þessi dægrin og ekki ofsögum sagt.

Fyrirbærið OPM, eða other people´s money, annarra manna peningar, eitt heiftúðugasta einkenni öfgakapitalisma, sýnir nú sitt rétta andlit. Morgunljóst af atburðum síðustu daga að annarra manna peningar hafa verið notaðir í flottræfilsháttinn hér á Fróni og eins til að spila sig stórt í útlandinu. 

Engin ráðaöfl gangast þó við ábyrgð á stöðu mála og er það litlu skárra - og dugir ekki að nudda sínar aldrei í kalt vatn drepið hendur á tiginnmanna og - kvennamótum heima og heiman...  

 Var einhver að misskilja leikreglur lýðræðis? Svefnhöfugt Alþingi og seðlabanki á kenningastiginu.

Það dugar ekki að vísa hver á annan og segjast hafa varað við því skelfingarástandi, sem nú sýnir sig. Af hverju gerðist þá aldrei neitt? Og hver ber ábyrgð á því þegar upp er staðið?

Minnir óneitanlega á ævintýrið um Einbjörn, Tvíbjörn. En það var ævintýri; þetta hér og nú er veruleikinn framan í þessa litlu þjóð. 

Vissulega er alheimsleg fjármálakreppa, en því til viðbótar er okkar litla íslenska hagkerfi alveg einstakt í veröldinni og súrrealískum lögmálum háð, að virðist. Og nú sýnir sig einmitt hve höllum fæti hinn íslenski neytandi stendur í þessum alþjóðlegu en líka heimatilbúnu hamförum.

Mörg mál, sem voru brýn úrlausnar áður en útrásin svokallaða hófst og til staðar í gamla bankakerfinu, hafa nú að 30 árum liðnum, þ.e. ef miðað er við innreið frjálshyggju og myntbreytingar með öllu tilheyrandi, enn ekki verið leyst. Þar er m.a. átt við réttarstöðu og mannréttindi hins almenna neytenda, eins og gagnvart greiðsluaðlögun skuldara, endurskoðun gjaldþrotalaga og vaxtalaga og hámörkun okurvaxta.

T.a.m. voru ekki íslenskir okurlánarar svo hataðir á fyrstu áratugum 20. aldar, að það lá við að þeir væru skotnir á færi?

Til þess að taka af öll tvímæli. Þetta er ekki ástarbréf enda samkvæmt nýjustu visku úr fjármálaheiminum, er gerður greinarmunur á spilapeningunum í Spilavítinu Ísland. Alveg eins og raunar lengi hefur verið gerður greinarmunur á spilamönnunum, sem þar gera sig sér glaðan dag með annarra manna peninga.

En vonum það besta þess minnug að margur verður af aurum api. 


Latínan staðið með mér en kennarinn kominn í bisness

Fallegt var landið í litríkum haustbúningnum og veðurguðrirnir bara nokkuð sáttir á þessari þeysireið okkar suður yfir fjöllin í fertugsafmæli Freysa á Sólon. Fölmenningarsamfélagið mætt til að gleðjast með sínum boss og borða góðan mat og þær rússnesku - þrjár kynslóðir - höfðu töfrað fram gómsætar tertur í eftirrétt. Öðruvísi hnallþórur og góðar.  En hver var hún annars þessi Marlyn Monroe, sem söng afmælisönginn uppi á borðum? Jú; Húsavík er víst á Íslandi.

Frétti af mínum gamla latínukennara, á fullu í bisness og farið að ganga vel. Er ekki þetta líf vort undarlegt hér á Fróni? Það græðir engin á latrínu, svo mikið er víst. 

Fleiri fréttir í afmælinu og svo gerast fréttir í svona afmælum, sem er best að hafa ekki eftir... 

 

 

 


Hvað er hvurs virði?

Hvað er hvurs virði, varð mér hugsað í morgunsárið á þessum bjarta og haustfagra sunnudagsmorgni. Á alþjóðlegum degi friðar með jafndægri á hausti á næsta sólarhing. Á tímum þar sem kaup og sala peninga er mál málanna.

Já; hvað höfum við svo sem fengið fyrir þessa peninga, þessa dýru peninga, sem hér eru í umferð? Þau eru ófá málin, sem engir peningar koma í. Þó mál, sem miklu skipta fyrir fjölskyldurnar í landinu, að ekki sé nú minnst á gamla fólkið, bakstoð nútímasamfélags hér á Fróni.

Er eitthvað annars að gerast til að rétta hlut fólks? Fjölgað ekki um eitt stöðugildi hjá Ráðgjafastofu heimilanna? Sei, sei.

Stjórnvöld að vanda slyng að skilgreina sig frá vandanum. Bara halda áfram með brauð og leika... og kaupa og selja peninga.

En verður mennskan keypt? Og seld? 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband