Færsluflokkur: Bækur

Freskan í Balquhidder og ferðalag hennar

Enn í Ítalíudraumunum og Rómargöngunni og þaðan í gegnum Skotland og Stirling/Balquhidder yfir til gamla Fróns. Nú er það ferð Madonnufresku; eftirmyndarinnar.

Páskaförin til Montréal frestaðist nefnilega. Aukin veikindi, en nú komið í betra horf hjá pabba. Blessuðum.

Ein eftirmynd Madonnufreskunnar úr Basilíku Heilags Frans í Assisi eftir Cimabue (eða diPepo) ferðaðist upp Evrópu með fjölskyldu, sem flúði Þýskaland nasismans. Endaði í Balquhidder í húsi einu við Loch Voil, uppi á fagurri skógarhæð. Dvaldi þar árum saman uns eigandinn féll frá, háöldruð og elskuleg læknisekkja, hverrar sonur arfleiddi okkur að þessari fallegu eftirmynd freskunnar. Madonna og barn og heilagur Frans auðmjúkur til hliðar.

Freskan hefur fylgt okkur allar götur síðan. Og um hana fjallar Umberto á draumþinginu í sumar í Montréal ásamt fleiri seinni myndverkum Endurreisnarinnar. (Giorgio Vasari reit um ævi freskuhöfundarins, Cimabue, og þar með fyrstu listasögubókina, Le Vite).

Fratello Sole; heilagur Frans var sagður kunna fuglamál.  Elskan á sköpunarverkinu - mönnum og málleysingjum - svo sterk að hindranir heimanna féllu. Allt varð ofurskírt eins og í Sálminum til sólarinnar, sem talið er fyrsta frumsamda verkið á ítölsku. Eða í friðarbæninni:

Ger mig að farvegi friðar þíns... 

Já; ekki veitir af miskunnsemi í þennan hrjáða heim okkar. 

 


Með aríu í för til Konungsfjalls

Held áfram með Ítalíudraumana. Á leiðinni í Kjarnaskóg áðan, heyrði ég Aqualung í fyrsta skipti lengi á Effemm. Rifjaði upp Jethro Tull nostalgíuna og Cross-eyed Mary; þá sem hafa það skítt í veraldarvolkinu - eins og þarna á járnbrautarstöðinni í Róm forðum - og hina sem reyna að rétta hjálparhönd enda þótt það þýði að stela frá þeim ríku. Hróa hettir nútímans. Já; hvar skyldu þeir annars vera? 

Mikið rétt. Það var ástin á óperutónlist sem upphaflega og óbeint kom á þessum tengslum við Ítalíu. Man það núna þegar hugurinn leitar til baka. Pabbi var dolfallinn óperuunnandi og margar bernskuminningar tengjast honum yfir His matsers voice spilaranum og plötunum, syngjandi sjálfur með aríurnar. Okkur fannst þetta sérstakt, krökkunum, en samt ekkert út úr kortinu. Ég man þó best eftir hundinum á plötunum....

 Seinna kolféll ég svo sjálf fyrir óperunni: O mio babbino caro...

 Svo voru það skórnir og Bari og forstjóri Mílanó óperunnar, báðir frá San Pancrasíó, eins og Perrone. Lítill er heimurinn en þó svo stór og pabbi fór víða um hann á þessum árum. Á góðum skóm. Nútíma Hrói höttur sem stal frá sjálfum sér til að gefa öðrum.

Barcaro kemur inn á sköpunargáfuna og þegar hún blokkerast með umfjöllun um drauma og leiðslusýnir hjá Fellini í þeirri mögnuðu mynd - af skóm - 8 og 1/2. Í júlíhitanum og rakanum í Montréal í sumar. Gæti orðið súrrealísk dægursveifla. (Þoli svona hita og raka ekki of vel og sef eins og fugl fyrir vikið).

Og nú styttist í páskaferð til Konungsfjalls/Montréal. Ítalska arían með í för og draumarnir. Pabbi í góðum höndum á Sjúkrahúsinu og allt að þokast áfram í hans veikindum. Maðurinn sem svo elskaði fólk og skó, er nú búinn að missa annan fótinn. Ótrúleg seigla; nærveran sem hljómþýð aría. Ítalíufarinn hún systir mín komin heim og tekin við vaktinni.

Tutto bene. Eða svo gott sem það getur verið.

Held það bara. 


Ítalíustraumar og draumar

Hef verið að grúska í gömlum dagbókum frá Ítalíuferð og undirbúa symposium með Russo og Bacaro ofl. um ítalskt dreymi í listum. Athuga hvort í dagbókunum séu einhverjir skráðir draumar frá þessu Ítalíuævintýri, að heimsækja mína íslensk-ítölsku fjölskyldu í Púglíu á stígvélahælnum. Perrone ættin hefur lengi átt þar ræktarlönd en víða farið - Perón og Argentína - eins og mín íslenska familie. Að vísu ekki Rómarganga að fornum sið heldur nútíma lestarferð.

Fyrst var það Gstaad og Saanen í friðsælli fegurð svissneskra sveita og Alpa, hlustandi á Indverska spekinginn Krishnamurti. Þaðan til Bernar og í háskólann. Síðan hrikaleg skörðin yfir á Pó sléttuna og þaðan bein leið til Rómar. Í þessu dagbókarbroti er skráð eftirfarandi um ferðina frá Bern til Rómar:

 Veit ekki hvort ég er sofandi eða vakandi því maður verður svo slæptur í þessum lestum. Er núna búin að vera á ferðinni í lestinni síðan kl. 8 í gærkveldi og nú er kl. að verða 8.30, þ.e. í 12 tíma á ferðalagi. Erum loks að nálgast Róm...

 Mjög fallegt hér á Ítalíu, sól og gott veður, svolítil gola, og þvottur blaktir vinalega á snúrum þorpanna. Kann strax vel við mig.  Andstæðurnar við Sviss ótrúlegar. Meina menningin, þar var allt fallegt en í kyrramynd.

Líklega erum við komin til Rómar. Langar að fá mér herbergi og vera hér til morguns. Slappa vel af, fara í bað, fá mér góðan mat. Skoða mig um.

 Ekkert varð úr að ég fengi mér herbergi í Róm. Ég varð hálfsjokkeruð á troðfullri járnbrautarstöðinni og ákvað að taka næstu lest til Lecce. Konur með ungabörn í reifum betlandi þarna og svartklæddar nunnur stuggandi þeim kuldalega burt. Og þarna er rauðhærð og digur fallin kona, eða ég veit ekki hvað, öskrandi tutti eitthvað, úfið hárið út í loftið og andlitsmálningin lekandi niður í hitastækjunni. Eftir tóninum að dæma, blótandi karlpeningnum í kringum sig. Veit ekki hvert ég er komin. Ekki vantar Jómfrú Maríu í fleirtölu í minjagripabúðinni þar sem afgreiðlsukonan þykist ekki skilja orð í ensku. 

Fer inn í borgina og upplifi mig eitthvað svo smáa innan um þessar risavöxnu steinhallir sem skyggja á sólina. Það glittir í Páfastól. Vatíkanið. Tíminn er forn og dægursveiflan súrrealísk, undirtónar Austurs og Vesturs margradda. Gloria. Gloria in eccselsis. 

En; ekkert fær hrifið mig lausa frá sýninni á járnbrautarstöðinni. (Systir mín eyddi þessari angurværð seinna; allt sett á svið, betlið sem sé. En börnin voru raunveruleg, mótmælti ég, og það þykir mér verst. Fj. Og nú þessum áratugum síðar selja Austur Evrópubúar dætur sínar, systur og konur; the skin trade blómstar sem aldrei fyrr. Hélt við myndum ekki lifa þetta hér á Vesturlöndum, satt að segja. En kaupendurnir, það erum víst við).

Já; þessi fyrstu kynni af Róm voru mér sem martraðarkenndur draumur. Leiðslukenndur vakandi manns draumur undir Lúsíferskum áhrifum.

 Við tóku svefnlitlar nætur - og mennskir draumar - í júlíhitanum við grænblátt, móskubrimað Miðjarðarhafið og hreinar strendur Púglíu hvar heilög Lúsia dvaldi í neðanjarðarhelli eftir flóttann frá Sikiley. Náði mér í lifandi vatn úr hennar líknarlind fyrir augun hennar ömmu:

Svaf sæmilega en hitinn er óbærilegur. Dansaði heilmikið í gærkveldi, fórum á veitingastað. Borðaði pizzu, ekki til heima. Gaman á markaðnum með Ölmu. Fórum þaðan í helli heilagrar Lúsíu. Og Jósefína með sinn heilaga Antóníus, stytta með nátthúfu á borðstofuskápnum, yfir og allt um kring. Gott ef hún gefur honum ekki að borða með hinum; það verður erfitt að kveðja hana... Síðan var það Litla Flórens - Lecce - algjör draumur og hitti beint í hjartastað.  

Þessi Ítalíuferð markaði stór þáttaskil. Kannski er slatti af svefnlausum náttum undir ítalskri sól bara hollur ásamt dágóðu stuði af fjölbreyttri menningarflóru. Því þarna tókst mér loks að gera upp hug minn um næstu skrefin í sálfræðinni. Valdi hvorki Bern né Róm, sem báðar höfðu verið i sigtinu. Heldur Alba og Silfurborg. Skotland og Stirling.

Og nú er ég komin hringinn. Aftur blasir Rómarganga við - enda þótt í óeiginlegri merkingu sé- og ný deigla drauma minna.

 

 

 

 


Beint straumsamband

Það hefur hvarflað að mér að flytja á aðra plánetu. Núna á tímum hins skrumskælda lýðræðis. Ekki bara að allt sé eins og það er í vitleysisganginum heldur heyrist samhljómurinn við hina æ ver. Kannski eru drættirnir einfaldlega að skýrast og það glymur hæst ... bla, bla, bla. You know the rest. Verður að hafa það.

En alltaf skal hann rísa hinn nýi dagur og ekki er hann á förum neitt frekar en fyrri daginn! Ætti að taka mér hann til fyrirmyndar. Og hina, sem maður hittir á lífsgöngunni, og finnur samhljóm með.

Í dag á einn af mínum góðu vopnabræðrum í gegnum lífið stórafmæli. Til hamingju, minn kæri vin. Beint straumsamband - dire straits - á hinum óræðu gagnvegum lífsins, hefur gert ferðalagið þess virði að rísa alltaf upp aftur.

 

Through these fields of destruction

Baptisms of fire

I've watched all your suffering

As the battles raged higher

And though they did hurt me so bad

In the fear and alarm

You did not desert me

My brothers in arms. 


Eintómt bíó

Eintómt bíó þessi fjármálafarsi sem er í gangi. Eins og að horfa á endursýnda frumsýningu á útrásinni dag eftir dag. Stillt á hold...

 Vantar ekki smá reality check á stöðuna? Eru hlutirnir að hreyfast eitthvað? Hvernig hreyfir maður sig annars í seigfljótandi sýrópi? 

 A.m.k. eru svörin óljós þegar kemur að tryggingum og ríkisábyrgðum á bankainnistæðum og sparifjáreign landsmanna. Gleymdist þjóðin sjálf alveg; þessir venjulegu Íslendingar sem hafa önglað einhverju saman? Collateral damage á fullu? Eða í hvaða vinnu eru þingmenn og ráðherrar og hvar er löggjafinn staddur? Best fyrir alla að koma þessu á hreint sem fyrst.

 

  


Tímamót á Grosvenor Ave.

Það eru ýmis tímamótin í kortunum þessi dægrin. Fullt tungl og almyrkvi þann 21. og stjörnuskin skírt og fagurt sem aldrei fyrr það sama kvöld.

Í Gnostík er talað um að ekkert sé eins og það sýnist. Hef velt þessu mikið fyrir mér og hvergi hef ég séð jafn mikið af tvípúnktum í texta og við lestur gnostískra rita... Skyldi tvípúnkturinn táknrænn fyrir það að við deyjum og lifnum við í hverju andartaki?

Enda þótt Valentínusardagur sé að baki, þá erum við enn að minnast hans þessir íslensku ferðalangar á Hótel Jörð sem farið höfum víða þrátt fyrir að dagurinn fari fyrir brjóstið á mörgum landanum. Jæja. Hvað er svo sem að því að minnast eins mesta Gnostíkers sem uppi hefur verið, hans Valentínusar - enda þótt útlendur sé - og í leiðinni heiðra ástina og sameininguna við hinn innri mann?

 Söguleg tímamót þennan ágæta nýliðna Valentínusardag hjá fjölskyldunni að Grosvenor Ave. í Westmount. Kaupin á húsinu góða. Hátt til lofts og vítt til veggja. Litlir stúfar valsa þar frjálsir.

Já; nú er kátt í höllinni! Syttist í páska og fjölskyldufundi.

 

Blessunarbæn Valentínusar hljómar eitthvað á þessa leið á engilsaxnesku:

 

May the Grace beyond time and space

that was before

the beginnings of the Universe

fill our inner man

and increase within us

the semblance of itself

as the grain of the mustard seed. 

 

 


Léttstíg ganga - á klaka

Áfram veginn. Veit svona eitthvað um stefnuna, hún er óendanlega afmörkuð, er allt sem hægt er að segja.

 Í morgun í Kjarnaskógi í fyrsta skipti í talsverðan tíma. Upp með Brunná að venju. Svona léttstíg ganga á klaka og verst neðst en allt autt efst þar sem fer að sjást aftur í Súlur.

Hugsaði mikið um það hvernig best myndi að þýða enska orðatiltækið A walk in the park. Varla sem léttstíga göngu á klaka!

En kannski er það svo um okkur hér á Fróni að við öðlumst leikni við að ganga léttstíg á klaka.  Annars skripl - og einhver brýtur sig. Já; einsýnt að við þurfum að kunna að fóta okkur hér á Klakanum, þessi þjóð. En kunnum við það? Okkar þjóðfélagslega walk in the park á þessum vetri er mikið skripl. 

A walk in the park þýðir í eyrum enskra að eitthvað sé auðvelt fyrir manni. Það er t.d. ekkert walk in the park lengur að reka íslenskan banka...


Ballett á Valentínusardegi

Tuttugu og fjörgur ár frá fráfalli besta vinar míns. Hann lést á Valentínusardegi 1984 og það alls endis ófyrirséð. Fólk hélt hann myndi lifa að eilífu.

Á bágt með að trúa þessari mögnuðu hringiðu tímans og að enn sé ég hér í atinu þessum 24 árum seinna og engu nær hvert hann fór.

Eins og að tylla niður tá og taka nokkur ballettspor.

Já; því verður ekki neitað að í dag er ég uppi í skýjunum og því er þessi líking við ballett mun nærtækari en hvað annað. Svo sem ekkert sérstakt gerst, bara átti góða drauma og vaknaði endurnærð inn í gráglettinn sólstafamorgun þessa Valentínusardags.

Vissulega vaknar oft spurning í huga mér hvar leið míns kæra vinar liggi, en hvað veit ég svo sem? Kannski er hann hér - ósýnilegur -, mitt á meðal vor, eða þar, mitt á meðal ykkar, þarna fyrir handan.

Einhvern veginn er þetta hugtak að einhver hætti að vera til, mjög torskilið, sérstaklega núna þegar ekki er laust við að eitthvað sem líkist vorvindi sveimi um loftið og veki von um nýtt líf og nýtt upphaf. (Að minnsta kosti erum við búin til úr geimryki).

Æi, já, ég er nú bara mannabarn sem er ekkert nær því að vita um för vinar míns eftir endalok þessa jarðlífs. Lengi vel fann ég til höfnunar. Furðulega smásálarleg hugsun að halda hann hefði hafnað mér og leyft sér að deyja frá mér.

En í dag er ég laus við þessa hugsun. Tíminn, hinn mikli græðari, hefur sinnt starfi sínu vel.

Megirðu halda áfram í friði, minn kæri. Hvort sem við dönsum ballett sem geimryksagnir í framtíðinni eða hvað.

Eða eigum aðra dansfélaga...


Að dreyma sig fiðrildi - eða öfugt

Þá er það upprunnið þennan sjöunda dag febrúarmánaðar á því herrans ári 2008, nýja árið Kínverjanna - ár rottunnar - á öðru nýju tungli frá Vetrarsólstöðum.

Frægt draumljóð Li Po kemur upp í hugann; að dreyma sig fiðrildi eða öfugt. Hin óræða spurning hver dreymir hvern?

 

Chuang Tzu and the butterfly

 

Chuang Tzu in dream became a butterfly.

And the butterfly became Chuang Tzu at waking.

Which was the real - the butterfly or the man?

Who can tell the end of the endless changes of things?

The water that flows into the depth of the distant sea

Returns anon to the shallows of a transparent stream.

The man, rainsing melons outside the green gates of the city.

Was once the Prince of the East Hill.

So must rank and riches vanish.

You know it, still you toil and toil, - what for? 

 

Li Po 

 

 

 

 


Veit ég það Sveinki

Kaldur og stormasamur, vindkælingin uppúr öllu...  Jæja, það er nú einu sinni Þorri.

Stóru spurningarnar í lífinu, eins og gleði og sorg, líf og dauði og það hvernig við svörum þeim, mótar okkur, bæði mýkir og herðir, eins og tilvistarheimspekingar hafa löngum bent á. Það að vera hraustur og hugrakkur, vona hið besta og breyta eftir þeirri von og taka svo því sem að höndum ber, taldi einn af feðrum nútíma sálfræði, William James, mestu um vert. Þetta var löngu fyrir daga Leyndarmálsins - the Secret - sem  nú fer á markaðs - og neysluhyggjumethraða um heimsbyggðina. Leitin að merkingu í tómhyggju samtímans. Spurning þó hvort hentistefna séu hin nýju trúarbrögð? Minnist sögunnar af Jóni biskupi Arasyni á dauðastundinni í þessu samhengi: 

Síðastur gekk Jón biskup á vit dauða síns og hélt á krossmerki, en áður hafði hann gengið í kirkjuna.

Og sem biskupinn gekk fram úr kórnum, vildi hann krjúpa niður fyrir Maríulíkneski en presturinn, sem hafði þjónustað hann og Sveinn hét, bað hann að leggja af þá hérvillu og mælti: Líf er eftir þetta líf, herra.

Vék biskup snögglega að honum með svofelldum orðum: Veit ég það Sveinki.

Honum var boðið líf, en hann kvaðst vilja fylgja sonum sínum. 

---------------- 

Forfaðir allra núlifandi Íslendinga.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband