Færsluflokkur: Bækur

Tíminn, hann er fugl...

Tíminn, hann er fugl sem flýgur hratt...

Vorið kom hratt og tíminn hraðskreiðari en venjulega, ekkert stress svo sem í gangi en einhvern veginn breytt tímaskyn. Er kannski eitthvað að gerast með plánetuna? Nógar eru hamfarirnar og mannanna döpur örlög í kjölfarið. Miskunnarleysi og spilling misviturra embætismanna í Austurlöndum fjær yfirþyrmandi. Gáfumannatal hér á skerinu um þessa atburði dugar skammt.

Því verður ekki neitað að heimurinn er að skreppa saman. Predatorar í alheimsþorpinu berjandi á manni og öðrum. Lýðurinn vill brauð og leika; dóp og djúserí. Allt á að vera í gúddí og allt er auðvitað í gúddí meðan ekkert sést nema áferðarfallegt yfirborðið...

Merkilegt hve valmúinn hefur lagt undir sig heiminn og fjármagnað heilu hagkerfin, að ekki sé talað um stríðstólin. Og íslensk ungmenni auðfundin bráð undir tálið, á bálið. Þyngra en tárum taki. Gerst hratt og skarpt. Blessuð börnin þeirra.

Var einhver að djóka? Ónei. Veruleikafirrt martraðarvera. Að himininn sé bjartur og blár og grasið grænt á þessu hraðskreiða vori; skrítið. Verund og verðund.


Andað léttar

Þetta hefur verið svona ein af þessum maraþonvikum í vinnu og öðru. En best er þó að allt hefur gengið furðuvel; grunnur lagður að þróun til framtíðar og því sannkölluð tímamótavika. Óðal feðranna: Breiðablik í höfn m.a.

Skal þó viðurkenna að mér líður eins og lafmóðum spretthlaupara og líklega hefur góða loftið í Kjarna snemma í morgun fleytt mér áfram á síðasta sprettinum/blóðdropanum.

 Nú getur maður andað léttar og hvílst um stund, safnað kröftum fyrir næsta sprett og látið sig dreyma. Verkefni helgarinnar, enda þótt vinnutengd séu, virðast bara piece of cake.

Ágætis tilhugsun að lesa yfir prófspurningar um drauma og svinga síðan yfir í handritalestur fyrir góðan vin í skáldastétt. Þeir ættu að vita það hvað best margir pennarnir hér á skerinu, að ekki er allt tekið út með sældinni og raunar aðdáunarvert hve þeir halda kúrs. Hinn hreini tónn, eins og hjá Steini Steinarr, sem þrátt fyrir veraldarvolkið, kvað svo snilldarlega um veruleika og draum eða öfugt í Tímanum og vatninu - uppáhaldsbók mömmu, og sem við ólumst öll upp við:

 

Rennandi vatn,

risblár dagur,

raddlaus nótt.

 

Ég hef búið mér hvílu

í hálfluktu auga eilífðarinnar. 

 

Eins og furðuleg blóm

vaxa fjarlægar veraldir

út úr langsvæfum

líkama mínum. 


Og svo kom vorið...

Eins og hendi væri veifað er allur klaki farinn í Kjarnaskógi. Það lætur hátt í Brunnánni í leysingjunum. Raunverulegt vatnsfall, ekki lengur bara sakleysislegur bæjarlækur. Vorið er mætt á svæðið í öllu sínu veldi. Sannarlega ástæða til að fagna eftir langdreginn vetur - og mikinn klaka og skripl hér og þar á svellbunkum Ísalands í beinu og óbeinu tilliti.

Nú eru gestirnir - draumavefararnir víðförlu - farnir. Áttu hér góða tíð og merka drauma við dulúð eyfirskra fjalla og stranda. Hitti þau næst í Montréal í hitastækju júlímánaðar.

Næst á dagskrá er 40 ára afmælishátíð Stirling háskóla með pompi og pragt. Verður gaman að sjá hverjir mæta af gamla genginu. Balquhidder í sumarskrúða, trén að laufgast og þéttist stöðugt skógurinn upp að Man´s rock. Skógurinn sést nú betur fyrir trjánum... 

Ta-da! 


Myndir í svefnbók

Draumar eru myndir í svefnbók, segir í þeirri ágætu bók Ferðalangurinn - The Journeyer - sem fjallar um hinn víðförla Ítala Marco Polo og ferð hans til Austurlanda fjær.

 Nútíma ferðalangar - draumavefarar - komu árla dags frá Vesturheimi til að fræðast um draumamenninguna hér í Fróni. Vonandi eiga þeir eftir að gleðjast yfir myndunum í sinni svefnbók á meðan á dvöl þeirra stendur. Í dag í borginni við sundin, á morgun í höfuðstað Norðurlands og þaðan í Mývatnssveit eftir helgi. Bara að veðurguðrinir verði örlátir þó ekki sé nema á smá sólarglætu.

Víkjum að öðrum ferðalangi og víðförlum sem elskaði bæði fólk og skó og ítalskar aríur, svo sem fyrr er getið á þessum síðum. Tímamót í dag og ástæða til að gleðjast. Frábær árangur í veikindum hans. Mikið búið að leggja í, af honum sjálfum og öllu því góða fólki, sem hefur læknað og líknað. Veikindin loks í rénum, og stúfur að gróa. Kraftaverki líkast. Minnist heilunardraumsins frá um daginn...

 

 Það ýmist rignir eða hangir í rigningu. Jæja. Við ferðumst í hvaða veðri svo sem. Er þetta ekki allt draumur annars? Dettur í hug orð Jungs þegar hann sagði:

 

Who looks outside

dreams;

who looks inside,

awakens. 


Ljóslaus heimur?

Er ljóslaust í heiminum?

Það virðist vera svo nú um stundir, alltént ágerist ljósleysið með degi hverjum. Heimatilbúnum vanda fjölgar, stjórnnvöld eru úti í Hróa, og fjölmiðlar stútfullir af því nýjasta nýtt í heimi ríkra og frægra; eins tap er annars gróði.

Ljóslaust í þessum jari, jari, jarheimi. Pattstaða hvar þróun og framtíðarsýn skortir. 

Æi, já, þetta taktlausa bla, bla, bla litar alla afþreyingamenningu líka. Sjónvarpið svo mistækt að það er helst góður jazz á milli bíómyndanna á Stöð 2 bíó sem hægt er að gleðjast yfir. 

Held mig við samferðafólkið á lífsgöngunni - ljósið þar - og hetjukarlinn hann gamla, sem nú heyr enn á ný sitt veikindastríð, blessaður. Held áfram með Rómargönguna, sem hann kom mér upphaflega á, og ítölsku málarana. Nú er það Leonardo sjálfur. Og Cenacolo. Hin heilaga kvöldmáltíð. Kannski ýmislegt að læra af myndrýni og myndlæsi Endurreisnarinnar? Leitinni að hinu dulda myndmáli og huldum leyndardómum.

Ljósinu á bak við myndina.

Ljósinu í heiminum. 


Rómargangan og draumflæði í myndverkum di Cosimo

Sunnudagur og sól í heiði. Fullt tunglið eins og gul pönnukaka á bláhvítgráum kvöldhimni. Þessi fjarræni blá/hvítgrái litur himinsins nú, minnir á bakgrunnslandslagið og vatnið í mynd Piero di Cosimo af dauða Prókrísar. Hvar aðrir heimar flæða saman og alkemían heldur velli; meistari alkemíunnar tákngerður í brúnum hundi sem lútir tryggur yfir látinni Prókrísi. Mynd sem býr yfir einstökum töfrum og hefur haldið mér hugfanginni allt frá því ég fyrst leita hana augum í Þjóðarsafninu við Trafalgartorg í Lundúnum.

Held áfram Rómargöngunni og undirbúningi fyrir draumþingið í sumar með Ítölunum. Nú er það sem sagt hinn tímalausi enudurreisnarmálari Piero di Cosimo sem sjónum er beint að. Draumflæðið og fantasían í mörgum myndverka hans er einstaklega frumleg og minnir í raun um margt á nútímann; mýturnar, allgóríurnar og goðkynja furðuverurnar hafa lítið breyst.

Það var raunar við gerð freskanna í Sixtusar kapellunni í Róm undir stjórn Cosimo Rosselli, meistara di Cosimó, sem sá síðarnefndi gerðist áhugamaður um goðaheima mýtanna og féll fyrir trúarlegu myndmáli og alkemísku líkingingamáli.

Önnur frábær mynd eftir di Cosimo er Heilög María Magdalena. Myndbirtri sem fágaðri lærdómskonu, íhugulli með bókkver í hendi. Roðgyllta hárið flæðandi ekki síður en á gyðjunni Venus í mynd samtímamanns di Cosimo, Bottticelli, Fæðing Venusar.

Við erum að tala um ítalskan málara í kaþólskum sið á 15. öld! Enda talinn sérvitringur af samtíð sinni. Honum sé þökk fyrir framsýnina og hugrekkið.


Heilun á sólfögru vori

Sól og blíða hér í Eyjafirði í dag; raunar bjart frá því eldsnemma og margradda fuglakvak í garðinum. Morgunhressir smáfuglar og þess ekki langt að bíða að söngurinn hljómi hvað hæst um miðja nótt.

Í Kjarnaskógi var mun skárra að ganga en fyrr í vikunni, klakinn loks að gefa sig, en þó er enn svellbunki á stígnum milli furutrjánna tignarlegu upp við brú. Dulúðugt andrúmið þar inni á milli...

Lindisfuran stendur þarna ein á milli barrtrjáa og teygir feimnislega úr sér.

Það er vor í lofti. Og ég vaknaði upp við draum frá mínu æskuheimili í miðbænum hvar pabbi fæddist og ólst upp til fimmtíu ára aldurs, eins og við stríðum honum stundum á. Mér var rétt fallegt kort í bláum litum og þegar ég leit á það, hreyfðust litirnir eins og í þrívídd og mynduðu fallegan boga með himininn yfir og allt um kring; það stóð á því skýrum stöfum: Heilun. Mér varð hugsað til pabba og veikinda hans. Tímamót í þeim; líknandi heilun læknishanda.


Sundin blá

Helgardvölin á Vesturgötunni hvar vel sér á Sundin blá reyndist nærandi fyrir líkama og sál. Og gjöfin góða frá litlu fjölskyldunni í Montréal kom skemmtilega á óvart. Hin hvíta Tara með sínu íbyggna brosi á lavanderbeði. Gyðja miskunnseminnar. Átök að magnast í heimkynnum hennar í Austurlöndum fjær. Allt spurning um vitund og vitundarstig og birtingu vitundar í heimunum. En hver fær það skilið nú í þessum hörmungarheimi okkar? Vitundarleysi, mætti frekar segja að einkenndi hann og tilheyrandi óskapnaður.

Sundin blá; sem hrein og tær birting.

Síðan var það Persepólis. Við náðum okkur í eintak mæðgurnar í nördabúð dauðans, Nexus á Hverfisgötunni. Hreint afrek í animation og raunsæi í frásögn. Ótrúlegt að geta sagt þessa átakasögu um heimabrennu hinnar nútíma Persepólis og Írans með ívafi af jafngóðum húmör og raun ber vitni. Beitt vitund...

  


Helgarglápið og vökustaurarnir

Til allrar lukku voru augun enn á sínum stað í morgun; undir morgun hafði mig dreymt þau horfa í forundarn á sjálf sig. Og þegar ég vaknaði skildi ég drauminn betur. Augun virkuðu stærri en vanalega, reyklituð og þreytt eftir allt glápið undanfarna sólarhringa. Vökustaurar. Svona er nú undirmeðvitundin alltaf seig. Þetta höfðu verið svona vökustauraaugu í draumnum. Og nú horfðu vökustauraaugu á mig úr speglinum í morgunbirtunni þennan fyrsta apríl með vorið handan við hornið. Ekkert gabb þarna í naktri birtunni.

 Þakklát er ég hjálpsama gleraugnasalanum og hans góða fólki sem hafði tekist að skipta um gleraugnaspengur fyrir mig á föstudag þar sem mikið helgargláp var framundan. Svo sem ekki í fyrsta skipti sem ég missi gleraugun af nefinu og stíg á þau eins og í síðustu viku - var einhver að tala um skelfilega nærsýni eða að kunna ekki fótum sínum forráð -, spengurnar beyglast og brotna en glerin alltaf heil. Eitthvert undraefni í þeim, hlýtur að vera... 

Glápið byrjaði raunar vel fyrir helgi og áður en þetta óhapp varð í stiganum með gleraugun. Með myndunum Stardust og Beowulf eftir handriti Gaiman. Síðan fór ég yfir í annan Íslandsvin, Viggo Mortensen, frábær í Eastern promises. Var aldrei búin að sjá með honum History of Violence. Sé ekki eftir því. Mjög svo frábær mynd. Svo var það Jesse James og með honum ein gömul, Brokeback mountain. Fínar báðar. En af öllum þessum myndum verð ég að segja að myndirnar með Viggo höfðu vinninginn. Kannski er ég orðin svona ofbeldishneigð?

Lauk svo þessu maraþoni með Boston Legal, alltaf að verða betri, og vinalega raðmorðingjanum Dexter

Hætti nú þessu glápi í bili. Sælt að sofna og svífa í draumlönd inn; næturbíóið tekur völd. Þetta sagði a.m.k. einn helsti svefnfræðingur heims, dr. Dingle við Pennsylvaníu háskóla, í 60 mínútum um helgina, (sem ég sá líka):

Waking consciousness is a bit overrated. 


Draumur um fantasíu - eða öfugt

Draumur um fantasíu - eða öfugt, varð mér hugsað þegar ég horfði á Neil Gaiman taka við Scream höfundaverðlaununum fyrir teiknimyndasögur á Skjá einum í gærkveldi. Þessi frábæri sagnameistari er mikill Íslandsvinur og hefur raunar átt margar ferðirnar hingað, farandi huldu höfði um landið fagurt og frítt. Ekki ólíkur sjálfum Sandman í útliti. Ef þið skylduð rekast á hann...

Nú eru komnar út á DVD tvær kvikmyndir sem Gaiman skrifaði handritin að. Önnur er ævintýramyndin Stjörnuryk/Stardust, hin er Bjólfskviða/Beowulf. Michelle Pfeiffer og Robert di Niro eiga flottan leik í þeiri fyrri en þó finnst mér myndin of áreynslumikil á köflum þannig að mystíkin nær ekki beint að komast að. Svo er það hin tölvuteiknaða mynd af Bjólfskviðu, nokkuð brugðið frá sjálfu ljóðinu um Bjólf og Grendel og móður hans, en hvað með það, ekki það versta. Heldur hefði ég viljað sjá þá klassaleikara sem hér eru á ferð taka sprettinn í venjulegri kvikmynd af Bjólfi & co! Jæja, maður er svo kröfuharður og ekki inni í tölvuleikjaheiminum, sem myndin er stíluð inná.

Trúlega er myndasagan sterkasta hlið Gaimans. Það finnst mér a.m.k. Sandman sem var í harða jólapakkanum mínum, stóð svo sannarlega undir væntingum. Frábær og falleg útgáfa. Gaiman skrifaði um Sandman, þennan Morfeus draumheimanna, 75 hefti á sínum tíma. A hope in Hell ofl. góðgæti:

 

I am the universe--

all things encompassing,

all life embracing. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband