Færsluflokkur: Bækur

Hann rignir loks

Hann rignir loks. Mesti munur, allt skraufaþurrt. Man vart aðra eins þurrkatíð. Á heimleið í dag. Gekk vel með draumana og nú er það Kvikmyndamiðstöð næst. Nokkrir þættir; svona hugmynd fyrir veturinn. Dreymdi merkilega í nótt, stóra rútu sem ég mætti á leiðinni út Ólafsfjarðarmúla, hún var svona blágræn á lit, vegurinn rúmaði vart tvo bíla að mætast akkúrat þarna. En allt í einu var rútan bara horfin. Og ekki hrapaði hún í sjóinn, svo mikið er víst. Hvert veit ég ekki.

Merkt draumfjall Múlinn. En draumar sem mér hafa gengið og tengjast honum, hafa helst átt við atburði í útlöndum. Aldrei að vita hvað þessi táknar. Sjáum til.

Það er byrjað að rigna aftur.


Skuggsjá - spegill draumanna

Höfuðborgin er hvítgrá svona snemma morguns en kannski eigi eftir að skína sól þegar fer að líða á dag. Hér í vinnu fyrir Skuggsjá draumasetur að koma kynningarbæklingi í gagnið. Villi hjá Zetor sér um hönnunina eins og svo oft áður í verkefnum Skuggsjár. Hann hefur gert þetta fagmannlega og flott. Ekki að furða að Yoko Ono hafi leitað til þeirra hjá Zetor með hönnun í sambandi við sína friðarsúlu.

Skuggsjá; spegill draumanna í þessu tilviki. Þar sem vitundin speglar sig í sjálfri sér. Var að lesa viðtal við David Khan við læknadeild Harvard og núverandi forseta alheimssamtaka draumfræðinga. Hann telur að við séum í raun meðvituð á meðan okkur dreymir, bara í öðru vitundarástandi! Styður þessa skoðun vísindalegum gögnum og mælingum á heilastarfsemi.

Kannski nú sé fokið í flest skjól fyrir gamla Freud og hinu ómeðvitaða. En sjáum nú til. Það er fleira á jörðu og himni...

Og hvað sem öllu líður, þá er því ekki að neita að leikhús næturskuggsjárinnar getur reynst ótrúlega spennandi. Hafið yfir stað og stund og þekkt lögmál vitundar og veruleika.


Straumsambandið

Sunnudagur og sól í heiði. Eins og títt er um aðra vinnuþræla á Fróni, þá þarf að nota helgarnar vel. Bæði búin að fara fram í Kjarna - óvenju lítið í Brunnánni - og slá lóðina þannig að ég er bara býsna ánægð með dagsverkið. Og ná mér í rababara. Sulta í kvöld.

 Straumsamband við æðri veruleika, skal ekki segja. En óneitanlega finnur maður fyrir straumi lífsins svona í hringiðu dagsins innan um allan gróðurinn. 

Það verður stutt í næsta slátt... 


Að gúffa í sig anísstykki frá Kristjáni

Föstudagurinn þrettándi hefur reynst vel til að borga skatta og skyldur. Ekkert þó á við bankana. Vextir og enn meiri vextir. Eflaust er til einhver vaxtalöggjöf hér á Fróni en hvað með okurvaxtalöggjöf? Aldrei heyrt á hana minnst. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Skil ekki alveg hvar Þingheimur er staddur.

 Sárabótin var að gúffa í sig heilu anísstykki frá Kristjáni í trausti þess að frönsku genin bjargi mér - franskar konur fitna ekki! Nú, jæja, annars geng ég þetta bara af mér í Kjarnaskógi um helgina. Upp með Brunná innan um greni og lerki, aspir, birki, víði og reyni og plöntur af öllum stærðum og gerðum. Allt í blóma.

Anísstykkinn frá Kristjáni hafa verið til frá því ég man eftir. Þá skokkaði maður léttfættur - og vaxtalaus - eftir þeim niður í Strandgötubakarí.

Hvað varðar vaxtastefnuna í landinu:

Kannski erum við Íslendingar þrælar eins og Laxness orðaði það.


Gullregn eða peningatré?

Svona gæti fyrirsögn í Lífsbókinni hljóðað. Ekki vantar að Gullregnið blómstri sem aldrei fyrr en peningatré er það nú samt ekki. Kannski frekar hægt að líkja því við þolinmóða peninga! Það tekur nefnilega 10 - 15 ár fyrir Gullregn að ná þeim þroska að geta farið að blómstra. 

Held ég sættist á þessa samlíkingu og ræði ekki frekar nema hvað draumavinna þessa mánudags miðar að því að afla peninga í ýmis verkefni Skuggsjár draumaseturs. Og aldrei að vita nema hún skili gullregni í draumana, þolinmóðum peningi. Sjáum nú til. Og ekki skulum við gleyma að andans fóður er manninum jafn nauðsynlegt og hið veraldlega.

 Segir ekki einmitt í MacBeth Shakespears:

 Dreams are the chief nourishers in life´s feast.   


Ship of dreams

07/07/07. Svona raðast nú tölur dagsins flott upp. Dagurinn góður til draumavinnu við bómstrandi gullregnið utan við gluggann með býfluguna - vinkonu mína frá í vor að hún leitaði hér inn í nepjunni - iðna að störfum. Nú er framundan sýningin Draumar á Amti í ágúst. Draumar í ýmsu samhengi eins og t.a.m. draumar og tónlist.

Hef verið með fyrrum Dire Straits meðlim á fóninum, hinn skoska David Koepfler. Góður textahöfundur eins og Ship of dreams ber með sér:

If you´re blown apart and shattered, if you´re ripped from stern to bow

If you´re looking for assistance, if you really need it now

The ship of dreams is sailing, way to the farthest shore

She´s sailing on the coming tide and I must climb aboard

that ship of dreams.

Yeah the ship of dreams is sailing and I must climb aboard

Join me in the ship of dreams and we´ll reach the farthest shore

It´s the ship of dreams... all aboard.

 

 


Afmælin 4. júlí og slóðir feðranna

Tímamótadagurinn 4. júlí snertir ýmsa strengi í brjóstinu. Ekki bara þjóðhátíðardagur frændanna í Vesturheimi heldur 3ja ára afmælisdagur JR í Montréal - alltaf snjall og glaður snáðinn sá - og 26 ár hér í Fjólugötunni; life on Violet Street keeps going on. Og litli JR elskar snúðana hennar ömmu.

 Að lokinni vinnu morgunsins var haldið á slóðir feðranna og farin landkynningarferð upp í Mývatnssveit með G. vinkonu frá Lúxemborg. Drukkið afmæliskaffi í Gamla bæ og síðan farin hin fagra en fáfarnari leið norðan vatns. Á slóðir feðranna að Hofsstöðum. 

 Hofsstaðir, Laxáin og dalurinn, ein órofa og ósnortin heild. Ekki að furða að hingað hafi menn sótt orku og andlega næringu á fyrstu öldum byggðar. Enn sem þá, er orkan hér engu lík. 

Þótt þú langförull legðir

Though you travelled far

Til hamingju elsku JR, er á leiðinni með snúða!

 


you make me smile with my heart...

Já; það fer ekki á milli mála. Marlyn Monroe gat sungið! Hreint óborganlegur flutningur hennar á laginu When I fall in love. Eignaðist þessa góðu upptöku ásamt fleiri góðum úr gömlum kvikmyndum í minni uppáhalds bókabúð Chapters á Saint Catherine í Montréal um páskana.

Fyrir utan frábært úrval bóka, þá er Chapters oft með góðan jazz á boðstólum. Og nú stendur einmitt yfir aðaljazzhátíð Montréalborgar. Mikið um að vera á Place - des -Arts. Og fólk frá öllum heimshornum að gleðjast saman. Sannkölluð fjölmenningarborg, Konungsfjall - Montréal.

 Nú er röðin komin að My funny Valentine með Ritu Hayworth: you make me smile with my heart...

Held það bara; each day is Valentine´s day.


Hvítmistruð tilvera

Sól og blíða undanfarinna daga - henni sé þökk - hefur nú vikið fyrir hvítu mistri sem leggst yfir allt. Það skapar tilfinningu fyrir ákveðnu tímaleysi og ég er ekki svo viss um að það sé júlí lengur! Hann var þó bara að byrja í gær. Jæja, sjáum nú til.

 Diana Krall á fóninum og Isn´t this a lovely day.

Jú, ég held bara að þetta verði lovely day í vinnu og ýmsu stússi. Þessi hvítmistraða tilvera býr yfir vissri dulúð og spurn um hvað leynist að baki alls, tíma og rúms. Og ekki annað í stöðunni en mæta óvissunni og muna að anda!


Sjösofendadagur 27. júní

Sjösofendadagur 27. júní í dag. Merkur í grískri sögu; sjö sofandi ungmenni sem sváfu í frumkristni í 100 ár. Og þaðan barst dagur Sjösofenda upp Evrópu allt til Ísalands fyrr á öldum.

Afmælisdagur pabba, 78 ára, og alltaf jafn sæll og glaður, blessaður, þrátt fyrir skyndilega fötlun sína fyrir 3 árum.

Eins eru stór tímamót í mínu sálfræðilífi, tvöfalt útskriftarafmæli úr stórum sálfræðiáföngum hjá mér ber nefnilega upp á 27. júní. Bæði í H.Í. og úr doktornum í Stirling. Merkilegt nokk en svona er þetta nú skráð af himintunglunum í Lífsbókina. Sjálfsagt eitthvað þessu skylt að hafa svo stúderað sofendur og dreymendur út í hörgul undanfarin misseri.

Undir Jökli í fögru og sólbjörtu veðri gærdagsins með geimskip guðanna siglandi í heiðblámanum. Og Snæfellið sjálft í ljósfjólubláum lavender!

Heim í dag á Vesturgötu með B. undir léttum silfurhimni og litið inn á Landnámssetur í smá hressingu.

Vatnið undan Jökli er gamalt og geymir marga visku og ljós. Endurnýjun á líkama og sál...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband